Mourinho óhress með Graham Poll

José Mourinho sendir Graham Poll tóninn í leiknum í gærkvöld.
José Mourinho sendir Graham Poll tóninn í leiknum í gærkvöld. Reuters

José Mourinho knattspyrnustjóri Chelsea sagði eftir jafnteflið gegn Manchester United í uppgjöri toppliða ensku úrvalsdeildarinnar í gærkvöld að hann væri mjög óánægður með að hafa Graham Poll sem dómara á leikjum síns liðs. Slæm atvik sem tengdust honum og Chelsea væru orðin alltof mörg.

Mourinho missti stjórn á skapi sínu í seinni hálfleiknum eftir að hann taldi að leikmenn United hefðu sloppið vel frá tveimur ljótum brotum. Fyrst fékk Chris Eagles gula spjaldið fyrir að fara í tveggja fóta tæklingu gegn Shaun Wright-Phillips og síðan braut Wes Brown á Scott Sinclair með þeim afleiðingum að sá síðarnefndi ristarbrotnaði. Mourinho hellti sér yfir Poll og gekk síðan í áttina að áhorfendapöllunum því hann hélt að dómarinn hefði vísað sér af bekknum, sem Poll gerði ekki.

„Það eru alltof mörg atvik í leikjum Chelsea sem herra Poll dæmir. Við viljum ekki fá hann sem dómara. Við verðum að sætta okkur við það að hann sé settur á okkar leiki en ég gleðst ekki þegar ég frétti að herra Poll eigi að dæma leiki hjá okkur," sagði Mourinho.

Um atvikið þegar hann hélt að Poll hefði vísað honum af bekknum sagði Mourinho: „Ég sagði Poll ýmislegt sem ég hafði byrgt innra með mér síðan hann dæmdi leik okkar við Tottenham á White Hart Lane. Það var ekkert sérstakt, ég var að létta af hjarta mínu. Ég hélt að ég hefði fengið brottvísun en svo var ekki. Ég gekk í burtu en svo sögðu aðstoðarmenn mínir að ég gæti verið áfram á mínum stað. Poll var líkur sjálfum sér. Þetta var vanaleg frammistaða hjá honum í leik hjá Chelsea."

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert