Chelsea enskur bikarmeistari eftir 1:0 sigur á Manchester United

Didier Drogba fagnar eftir að hafa skorað sigurmark Chelsea undir …
Didier Drogba fagnar eftir að hafa skorað sigurmark Chelsea undir lok framlengingarinnar. Reuters

Chelsea varð í dag enskur bikarmeistari í knattspyrnu með því að sigra Manchester United, 1:0, frammi fyrir 90 þúsund áhorfendum á nýjum og endurbyggðum Wembley-leikvanginum í London. Staðan var 0:0 eftir venjulegan leiktíma en Didier Drogba skoraði sigurmark Chelsea þegar fjórar mínútur voru eftir af framlengingunni og lið hans varð þar með bikarmeistari í fjórða skipti í sögunni.

Fylgst var með gangi leiksins á mbl.is og textalýsing á honum fer hér á eftir:

120+3 Salomon Kalou lék upp völlinn og skaut framhjá marki United.

120+2 Ashley Cole hjá Chelsea fékk gula spjaldið fyrir tafir.

120. Paolo Ferreira hjá Chelsea fékk gula spjaldið fyrir brot á Paul Scholes. Þremur mínútum var bætt við leiktímann.

116. 1:0. Didier Drogba kom Chelsea yfir þegar hann komst einn gegn van der Sar markverði eftir þríhyrningsspil við Frank Lampard í gegnum miðja vörn United.

114. Salomon Kalou með besta færi Chelsea, lék í áttina að miðjum vítateig United og skaut hárfínt framhjá markinu.

112. Ole Gunnar Solskjær og John O'Shea komu inná hjá United fyrir Ryan Giggs og Michael Carrick.

110. Wayne Rooney fékk sendingu innfyrir vörn Chelsea, inní vítateiginn, en Petr Cech var fljótur út og gómaði boltann á undan honum rétt utan markteigs.

108. Ashley Cole kom inná sem varamaður hjá Chelsea fyrir Arjen Robben sem var í vandræðum vegna meiðsla.

107. Wayne Rooney með hörkuskot rétt utan vítateigs Chelsea en framhjá markinu.

105. Didier Drogba með skalla úr þröngu færi vinstra megin og í hliðarnetið á marki United, á lokamínútu fyrri hluta framlengingar.

104. Ryan Giggs var í dauðafæri á markteig Chelsea eftir fyrirgjöf frá Wayne Rooney en Petr Cech náði að verja á marklínunni. Fyrsta alvöru dauðafærið í leiknum. Sjónvarpsmyndir sýndu síðan að boltinn fór allur innfyrir marklínuna!

92. Alan Smith kom inná fyrir Darren Fletcher hjá United.

91. Salomon Kalou kom inná fyrir Shaun Wright-Phillips hjá Chelsea.

90+2 Flautað til loka venjulegs leiktíma og staðan 0:0. Framlenging. Ekkert var um opin færi í venjulegum leiktíma, Chelsea fékk þau hálffæri sem gáfust í fyrri hálfleik og United í síðari hálfleik.

90+2 United með aukaspyrnu á lokasekúndunum, á hægri kantinum. Ryan Giggs sendi fyrir markið en Nemanja Vidic skallaði yfir mark Chelsea.

88. Cristiano Ronaldo komst í skotfæri hægra megin í vítateig Chelsea en skaut framhjá stönginni nær.

85. Nemanja Vidic hjá United fékk gula spjaldið fyrir að stöðva Frank Lampard með peysutogi.

84. Claude Makelele hjá Chelsea fékk gula spjaldið fyrir að brjóta á Paul Scholes.

64. Wayne Rooney átti mikla rispu upp allan vinstri kantinn og inn í vítateiginn, alveg innað markteigshorni þar sem Petr Cech renndi sér á móti honum og gómaði boltann af tám Rooneys.

59. Paul Scholes hjá United fékk fyrsta gula spjaldið í leiknum fyrir að brjóta á Frank Lampard rétt utan við vítateigshornið hjá United. Didier Drogba reyndi skot úr aukaspyrnunni, og boltinn fór í utanverða stöngina nær.

57. Ein besta tilraun United í leiknum þegar Paul Scholes lyfti boltanum inn í vítateig Chelsea, vinstra megin, þar sem Ryan Giggs tók hann á lofti og þrumaði á mark Chelsea en rétt yfir þverslána.

47. Wayne Rooney tók góða rispu og átti hörkuskot að marki Chelsea en Petr Cech varði með því að slá boltann til hliðar.

46. José Mourinho gerði eina breytingu á liði sínu í hálfleik. Arjen Robben kom inná fyrir Joe Cole.

Fyrri hálfleik lokið og staðan er 0:0. Chelsea var heldur aðgangsharðara í hálfleiknum og átti þau hálffæri sem þar gáfust en United ógnaði marki Chelsea sjaldan.

37. Frank Lampard með hörkuskot af 20 metra færi að marki United en rétt yfir þverslána.

32. Shaun Wright-Phillips í færi rétt innan vítateigs eftir sendingu frá Drogba en skaut yfir mark United.

31. Chelsea átti góða sókn upp hægra megin, Paolo Ferreira sendi inní vítateiginn á Frank Lampard sem skaut hægra megin úr teignum en Edwin van der Sar í marki United varði.

22. Didier Drogba átti þrumuskot að marki United af 25 metra færi en rétt framhjá.

10. Joe Cole hjá Chelsea fékk stranga viðvörun en slapp við spjald eftir að hafa brotið illa á Wes Brown.

7. Chelsea fékk fyrsta færið en Shaun Wright-Phillips skaut í Wes Brown varnarmann United og hættunni var bægt frá.

Flautað var til leiks kl. 14.00.

Lið Chelsea: Petr Cech - Paolo Ferreira, John Terry, Michael Essien, Wayne Bridge - Frank Lampard, Claude Makelele, John Obi Mikel - Shaun Wright-Phillips, Didier Drogba, Joe Cole.
Varamenn: Carlo Cudicini, Ashley Cole, Arjen Robben, Salomon Kalou, Lassana Diarra.

Lið Manchester United: Edwin van der Sar - Wes Brown, Nemanja Vidic, Rio Ferdinand, Gabriel Heinze - Darren Fletcher, Michael Carrick, Paul Scholes - Cristiano Ronaldo, Wayne Rooney, Ryan Giggs.
Varamenn: Tomasz Kuszczak, Patrice Evra, Alan Smith, Ole Gunnar Solskjær, John O'Shea.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert