Arnór: Mörg félög hafa sýnt Eiði áhuga

Eiður Smári Guðjohnsen ætlar sem fyrr að sanna sig hjá …
Eiður Smári Guðjohnsen ætlar sem fyrr að sanna sig hjá Barcelona. AP

Arnór Guðjohnsen, faðir Eiðs Smára Guðjohnsens landsliðsfyrirliða í knattspyrnu og umboðsmaður hans, sagði í samtali við fréttavef BBC í dag að mörg félög hefðu sýnt Eiði áhuga. Hann væri eftir sem áður staðráðinn í að sanna sig hjá Barcelona og Arnór telur að Eiður og Thierry Henry gætu myndað mjög öflugan sóknardúett hjá Katalóníuliðinu. Eiður hefur að undanförnu verið orðaður við mörg ensk félög, m.a. Manchester United og nú síðast Newcastle.

„Það hafa mörg félög sýnt Eiði áhuga en hann ætlar að sanna sig hjá Barcelona. Hann myndi henta mjög vel með Henry í framlínunni því þeir eru ólíkir leikmenn. Ég sé ekki fyrir mér að þeir Samuel Eto'o og Henry myndu ná eins vel saman. Eiður getur spilað aftar og náð góðri samvinnu við Henry sem ég held að myndi henta betur," sagði Arnór við BBC.

Arnór sagði að engar viðræður við önnur félög hefðu átt sér stað en hann vissi ekki hvort sonur sinn væri inni í áætlunum Barcelona fyrir næsta tímabil. „Eiður er í fríi þessa dagana og hefur ekki verið í sambandi við nein féög. Hann stefnir á að hefja undirbúninginn fyrir næsta tímabil með félögum sínum í Barcelona síðar í júlí. En þó hann vilji vera um kyrrt veit ekki hverjar áætlanir Barcelona eru," sagði Arnór Guðjohnsen við BBC.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert