Sunderland fékk skell

Roy Keane hefur ekki verið svona brosmildur eftir skell sinna …
Roy Keane hefur ekki verið svona brosmildur eftir skell sinna manna gegn Luton í kvöld. AP

Óvænt úrslit urðu í 2. umferð ensku deildabikarkeppninnar í knattspyrnu í kvöld þegar lærisveinar Roy Keane í úrvalsdeildarliði Sunderland töpuðu 3:0 fyrir 2. deildarliði Luton Town. Sunderland var ekki eina úrvalsdeildarliðið sem féll úr keppni. Wigan tapaði á heimavelli fyrir 1. deildarliði Hull, 0:1 og Derby tapaði í vítaspyrnukeppni gegn 1. deildarliðið Blackpool.

Íslendingaliðin West Ham, Portsmouth, Reading og Burnley hrósuðu öll sigri í leikjum sínum.

Aston Villa burstaði Wrexham á útivelli, 5:0. Shaun Maloney skoraði tvö marka Villa og þeir Nigel Reo-Coker, Luke Moore og Marlon Harewood gerðu sitt markið hver.

Hermann Hreiðarsson lék síðustu þrjár mínúturnar fyrir Portsmouth sem sigraði 2. deildarlið Leeds, 3:0. Noe Pamarot skoraði tvö marka Portsmouth og David Nugent skoraði eitt.

Brynjar Björn Gunnarsson og Ívar Ingimarsson voru hvíldir í liði Reading sem marði Swansea í framlengingu, 0:1. Leroy Lita skoraði eina mark leiksins á 101. mínútu. Garry O'Connor og Gary McSheffrey skoruðu fyrir Birmingham sem vann 2:1 sigur á Hereford.

Jóhannes Karl Guðjónsson lék fyrri hálfleikinn fyrir Burnley sem hafði betur gegn Oldham, 3:0.

West Ham sigraði Bristol City á útivelli, 1:2. Craig Bellamy skoraði bæði mörk West Ham og kom liðinu í 2:0 í fyrri hálfleik.

Fulham marði Shrewsbury á útivelli, 0:1, með marki frá Diomansy Kamara á 60. mínútu.

Leikur Nottingham Forest og Leicester City var flautaður af í hálfleik eftir að leikmaður Leicester, varnarmaðurinn Clive Clarke, hné niður í búningsklefanum og var fluttur í skyndi á sjúkrahús.

Derby og Blackpool skildu jöfn, 2:2, eftir venjulegan leiktíma og framlengingu en Blackpool hafði betur í vítakeppni, 7:6. Mohammed Camara og Craig Fagan gerðu mörkin fyrir Derby.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert