Arsenal skoraði 7 mörk gegn Slavia Prag

Cesc Fabregas fagnar marki sínu ásamt félögum sínum.
Cesc Fabregas fagnar marki sínu ásamt félögum sínum. Reuters

Arsenal tók tékkneska liðið Slavia Prag í kennslustund í H-riðli Meistaradeildar Evrópu. Enska liðið sigraði 7:0, en staðan var 3:0 í hálfleik. Cesc Fabregas skoraði fyrsta markið á 5. mínútu en á 24. mínútu skoraði David Hubacek sjálfsmark og Theo Walcott bætti við þriðja markinu á 41. mínútu. Aleksandr Hleb bætti við fjórða markinu á 51. mínútu, Walcott skoraði á ný á 55., Fabregas skoraði sjötta markið á 58. mínútu og Nicklas Bendtner skoraði síðasta mark leiksins á 89. Arsenal er með fullt hús stiga eftir þrjár umferðir, 9 stig, og liðið hefur skorað 11 mörk og ekki fengið mark á sig.

Í hinni viðureign H-riðils áttust við Sevilla frá Spáni og Steaua Búkarest frá Rúmeníu. Sevilla hafði betur 2:1. Frederic Kanoute skoraði á 5. mínútu og Luis Fabiano bætti við marki á 18. mínútu. Ovidiu Petre skoraði fyrir Steaua á 63. mínútu.

Sevilla er með 4 stig, Slavia Prag er með 3 stig og Steaua Búkarest er með 1 stig.

Í G-riðli áttust við PSV Eindhoven frá Hollandi og tyrkneska liðið Fenerbache. Ekkert mark var skorað í þeim leik. Fyrr í dag sigraði Inter frá Ítalíu lið CSKA í Moskvu, 2:1.

Inter er með 6 stig, Fenerbache er með 5 stig, PSV er með 4 stig og CSKA Moskva er með 1 stig.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert