Alex Ferguson: Ekki tveggja liða barátta

Cesc Fabregas og Steed Malbranque í baráttu í leik Lundúnaliðanna …
Cesc Fabregas og Steed Malbranque í baráttu í leik Lundúnaliðanna Arsenal og Tottenham í fyrradag. Reuters

Leikmenn Arsenal fögnuðu jólahátíðinni á toppi ensku úrvalsdeildarinnar og vonast leikmenn Lundúnaliðsins eftir því að saga síðustu ára endurtaki sig því síðustu þrjú árin hefur liðið sem stitur í toppsætinu þegar jólin ganga í garð hampað Englandsmeistaratitlinum um vorið.

Manchester United var í toppsætinu á sama tíma í fyrra og varð Englandsmeistari og sömu sögu er að segja um Chelsea árin 2004 og 2005.

„Ef þessi tölfræði er rétt þá getum við bara hætt núna og við fengið titilinn," sagði Wenger í gamansömum tón á vikulegum fréttamannafundi.

Arsenal hefur 43 stig í efsta sæti, stigi meira en Manchester United og Chelsea er svo í þriðja sætinu með 37 stig. Öll verða liðin í eldlínunni á morgun en þá fara átta leikir fram í úrvalsdeildinni. Chelsea tekur á móti Aston Villa klukkan 13. Mancester United sækir nýliða Sunderland heim klukkan 15 og Arsenal mætir Portsmouth á útivelli klukkan 19.45. Liverpool, sem situr í fimmta sætinu, 10 stigum á eftir Arsenal, sækir nýliða Derby heim.

Þegar flestar deildakeppnir í Evrópu taka vetrarhlé er þétt leiki í kringum jólahátíðarnar en liðin spila þrjá leiki á sjö dögum. Arsenal leikur við Portsmouth, Everton og West Ham en Manchester United gegn Sunderland, West Ham og Birmingham.

Sir Alex Ferguson knattspyrnustjóri Manchester United segir að þrátt fyrir að Chelsea og Liverpool séu töluvert á eftir Arsenal og United þá hafi hann ekki afskrifað félögin í baráttunni um titilinn.

„Það er ekki hægt að tala um baráttu tveggja liða. Desember er ákaflega þýðingarmikill mánuður enda mörg stig í pottinum. En við erum nálægt Arsenal og eigum góða möguleika á titlinum,“ segir Ferguson.

Chelsea varð fyrir áfalli í leik sínum gegn Blackburn í fyrradag þegar markvörðurinn Petr Cech meiddist og þar sem varmarkvörðurinn Carlo Cudicini er einnig á sjúkralistanum ásamt fleirum mun Hilario standa á milli stanganna í næstu leikjum liðsins.

„Við þurfum að nýta allan okkar mannskap vegna allra þessara meiðsla sem hafa verið að hrjá okkur. Þeir leikmenn sem hafa komið inn hafa leyst sín hlutverk vel og ég hef fulla trú á þeim,“ segir Avram Grant knattspyrnustjóri Chelsea en auk markvarðanna Cech og Cudicini eru John Terry, Didier Drogba og Florent Malouda á meiðslalistanum.

„Öll fjögur liðin unnu fyrsta leiki sína í jólatörninni og það stefnir í spennandi keppni um titilinn. Þó svo að við séum sex stigum á eftir toppliðinu tel ég við getum blandað okkur í titilbaráttuna,“ sagði Grant ennfremur.

Leikirnir sem hin fjögur stóru (Arsenal, Man Utd, Chelsea og Liverpool), eiga um hátíðarnar eru:

Arsenal:

26. des Portsmouth (ú)

29. des Everton (ú)

1. jan West Ham (h)

Manchester United:

26. des Sunderland (ú)

29. des West Ham (ú)

1. jan Birmingham (h)

Chelsea:

26. des Aston Villa (h)

29. des Newcastle (h)

1. jan Fulham (ú)

Liverpool:

26. des Derby (ú)

30. des Man City (ú)

2. jan Wigan (h)

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert