Arsenal vann frækinn 2:0 sigur í Mílanó

Cesc Fabregas hjá Arsenal og Alexander Pato hjá AC Milan …
Cesc Fabregas hjá Arsenal og Alexander Pato hjá AC Milan í baráttu í leiknum í kvöld. Reuters

Arsenal vann í kvöld frækinn útisigur á AC Milan, 2:0, í Meistaradeild Evrópu í knattspyrnu og Manchester United og Barcelona tryggðu sér líka sæti í 8-liða úrslitum keppninnar.

Leikur Sevilla og Fenerbache er framlengdur en liðin eru jöfn, 5:5, og með jafnmörg mörk á útivelli.

Cesc Fabregas kom Arsenal yfir á 84. mínútu og Emmanuel Adebayor innsiglaði sigurinn í uppbótartíma, 2:0. Arsenal varð þar með fyrst enskra liða til að vinna útisigur á AC Milan í Evrópukeppni.

Manchester United vann nauman sigur á Lyon, 1:0, með marki frá Cristiano Ronaldo. Þar með vann United sinn 10. leik í röð á heimavelli í Meistaradeildinni og jafnaði met Juventus í keppninni.

Barcelona sigraði Celtic, 1:0, þar sem Xavi skoraði í byrjun leiks. Eiður Smári Guðjohnsen kom inná sem varamaður hjá Barcelona á 82. mínútu.

Þetta gerðist í leikjunum í kvöld, samanlögð staða í svigum:

AC Milan - Arsenal 0:2 (0:2)
Cesc Fabregas bjargaði á marklínu Arsenal á 8. mínútu eftir þunga pressu og hornspyrnu AC Milan.
Abou Diaby, miðjumaður Arsenal skaut rétt framhjá marki AC Milan eftir fallega skyndisókn enska liðsins á 13. mínútu.
Alexander Pato fékk dauðafæri á 19. mínútu eftir frábæran sprett Kaká en skaut beint á Almunia markvörð Arsenal.
Kalac markvörður AC Milan varði naumlega fallegt skot frá Emmanuel Adebayor á 28. mínútu, með því að slá boltann yfir þverslána.
Aliaksandr Hleb var felldur á vítateigslínu AC Milan á 33. mínútu en í stað þess að dæma vítaspyrnu, eða í það minnsta kosti aukaspyrnu á línunni, sýndi dómarinn Hleb gula spjaldið fyrir meintan leikaraskap. Augljóslega rangur dómur, samkvæmt sjónvarpsmyndum.
Mínútu síðar, á 34. mínútu, átti Cesc Fabregas þrumuskot í þverslána á marki AC Milan eftir langan yfirburðakafla hjá Arsenal.
Arsenal hélt uppteknum hætti í byrjun síðari hálfleiks. Philippe Senderos komst í dauðafæri á 48. mínútu en skaut beint á Kalac og á 50. mínútu komst Emmanuel Eboue innfyrir vörnina hægra megin en skaut framhjá.
Theo Walcott komst innfyrir vörn AC Milan og í dauðafæri á 74. mínútu en renndi boltanum fyrir markið í stað þess að skjóta og Ítalirnir björguðu á síðustu stundu.
Alexander Pato átti hörkuskot að marki Arsenal á 79. mínútu en rétt framhjá stönginni fjær.
Arsenal náði loks að brjóta ísinn á 84. mínútu þegar Cesc Fabregas fékk boltann á miðjum vallarhelmingi AC Milan, lék áfram og skoraði með þrumuskoti með jörðu, alveg útvið stöng, 0:1.
Í uppbótartíma innsiglaði Arsenal síðan sigurinn þegar Emmanuel Adebayor skoraði af  stuttu færi eftir sendingu frá Theo Walcott. Langþráð mark Adebayors í Meistaradeildinni.

Lið AC Milan: Kalac, Oddo, Kaladze, Nesta, Maldini, Ambrosini, Pirlo, Gattuso, Pato, Kaká, Inzaghi.
Varamenn: Bonera, Gourcuff, Favalli, Simic, Gilardino, Emerson, Fiori.
Lið Arsenal: Almunia, Sagna, Gallas, Senderos, Clichy, Eboue, Fabregas, Flamini, Diaby, Hleb, Adebayor.
Varamenn: Walcott, Hoyte, Bendtner, Gilbert, Denilson, Van Persie, Lehmann.

Manchester United - Lyon 1:0 (2:1)
Patrice Evra, franski bakvörðurinn hjá Man.Utd, fékk gula spjaldið strax á 4. mínútu fyrir að brjóta á Karim Benzema.
Kim Kallström hjá Lyon átti hörkuskot á 29. mínútu sem Edvin van der Sar varði með því að slá boltann frá.
Man. Utd komst yfir á 41. mínútu. Wes Brown sendi fyrir markið, Anderson skaut í varnarmann og Cristiano Ronaldo náði boltanum og skoraði með föstu skoti, 1:0.
Litlu munaði að Kader Keita jafnaði fyrir Lyon á 70. mínútu en hann átti hörkuskot í stöngina á marki Manchester United.

Lið Man. Utd: Van der Sar, Brown, Ferdinand, Vidic, Evra, Fletcher, Carrick, Anderson, Nani, Ronaldo, Rooney.
Varamenn: Tévez, Scholes, Hargreaves, O'Shea, Park, Saha, Kuszczak.

Barcelona - Celtic 1:0 (4:2)
Xavi skoraði fyrir Barcelona strax á 3. mínútu, 1:0, eftir að Sylvinho sendi boltann fyrir mark Skotanna frá vinstri.
Lionel Messi hjá Barcelona haltraði af velli á 36. mínútu og Thierry Henry kom í hans stað.
Eiður Smári Guðjohnsen kom inná sem varamaður fyrir Xavi á 82. mínútu.

Lið Barcelona: Valdés - Zambrotta, Puyol, Thuram, Sylvinho - Touré, Xavi, Deco - Messi, Eto'o, Ronaldinho.
Varamenn: Eiður Smári, Henry, Bojan, Iniesta, Edmílson, Abidal, Pinto.

Sevilla - Fenerbache 3:2 (5:5)
Daniel Alves kom Sevilla yfir á 5. mínútu með skoti af 25 m færi og mistök markvarðar tyrkneska liðsins. Seydou Keita bætti við marki, 2:0, á 9. mínútu. Deivid svaraði fyrir Fenerbache á 20. mínútu, 2:1. Freddy Kanouté kom Sevilla í 3:1 á 41. mínútu. Deivid skoraði aftur fyrir Fenerbache, 3:2, á 79. mínútu. Þar með voru liðin jöfn, 5:5, og með jafnmörg mörk á útivelli, þannig að leikurinn er framlengdur.

Xavi fagnar eftir að hafa komið Barcelona yfir í kvöld.
Xavi fagnar eftir að hafa komið Barcelona yfir í kvöld. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert