Man. Utd missti af tveimur stigum á Riverside

Cristiano Ronaldo fagnar eftir að hafa komið Man. Utd yfir …
Cristiano Ronaldo fagnar eftir að hafa komið Man. Utd yfir á Riverside. Reuters

Middlesbrough og Manchester United skildu jöfn, 2:2, í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu á Riverside-leikvanginum í Middlesbrough í dag.

Afonso Alves skoraði bæði mörk Middlesbrough en Cristiano Ronaldo og Wayne Rooney gerðu mörk Manchester United.

Manchester United er því með þriggja stiga forystu í deildinni þegar fimm umferðum er ólokið. Man. Utd er með 77 stig, Chelsea er með 74 stig og Arsenal 71 stig en Manchester United á eftir að mæta bæði Arsenal og Chelsea á lokasprettinum í deildinni.

Cristiano Ronaldo, hver annar, kom Manchester United yfir á 10. mínútu. Eftir hornspyrnu frá hægri fékk Michael Carrick boltann vinstra megin í vítateignum, lék á varnarmann og sendi boltann fyrir markið þar sem Ronaldo skoraði með viðstöðulausu skoti af markteig, 0:1. Hans 27. mark í deildinni í vetur og 37. markið alls á tímabilinu.

Jeremie Aliadiere fékk dauðafæri til að jafna fyrir Middlesbrough eftir skyndisókn á 23. mínútu en hann skaut framhjá marki Man. Utd.

Afonso Alves átti hörkuskot á mark Man. Utd úr aukaspyrnu á 33. mínútu en Edwin van der Sar varði vel.

Afonso Alves var aftur á ferð á 35. mínútu þegar hann fékk langa sendingu frá Gary O'Neil  innfyrir vörn Man. Utd og skoraði af öryggi, 1:1.

Manchester United átti líklega að fá vítaspyrnu á 45. mínútu þegar Ronaldo skaut að marki og bakvörðurinn Andrew Taylor, sem kastaði sér fyrir hann, virtist verja boltann með hendi.

Afonso Alves var aftur á ferð á 56. mínútu þegar hann slapp innfyrir vörn Man.Utd og skoraði af mikilli yfirvegun, 2:1.

Engu munaði að Alves næði þrennunni á 59. mínútu þegar hann reyndi að skalla úr dauðafæri í markteignum en Rio Ferdinand náði að bjarga marki.

Enski landsliðsmiðvörðurinn Rio Ferdinand haltraði af velli á 70. mínútu og Gerard Pique kom í hans stað.

Wayne Rooney jafnaði fyrir Man. Utd, 2:2, með skoti rétt utan markteigs eftir að Park Ji-sung lék skemmtilega á varnarmann við endamörkin hægra megin og renndi boltanum fyrir til hans.

Um það bil sem uppbótartíminn var að renna út fékk Middlesbrough dauðafæri til að skora sigurmarkið en Edwin van der Sar bjargaði meistaralega.

Middlesbrough: Schwarzer, Young, Wheater, Pogatetz, Taylor, O'Neil, Boateng, Arca, Downing, Alves (Tuncay 78.), Aliadiere (Johnson 90.)
Varamenn: Turnbull, Cattermole, Grounds.

Man Utd: Van der Sar, O'Shea (Hargreaves 67.), Ferdinand (Pique 70.), Brown, Evra, Ronaldo, Scholes, Carrick, Giggs, Tevez (Park 64.), Rooney.
Varamenn: Kuszczak, Anderson.

Man. Utd er með Wayne Rooney og Carlos Tévez í fremstu víglínu. John O'Shea leysir Nemanja Vidic áfram af í vörninni en Alex Ferguson sá ekki ástæðu til að vera með Gary Neville eða Mikael Silvestre í 16 manna hópnum þó þeir væru búnir að ná sér af meiðslum og væru með í för. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert