Gerrard: Okkar lið gefst aldrei upp

Steven Gerrard teygir á hálsinum á æfingu en meiðsli þar …
Steven Gerrard teygir á hálsinum á æfingu en meiðsli þar hafa truflað hann undanfarna daga. Reuters

Steven Gerrard, fyrirliði Liverpool, segist fullviss um að sitt lið sé tilbúið til að slá Chelsea út í undanúrslitum Meistaradeildar Evrópu í þriðja sinn á fjórum árum. Liðin mætast í fyrri leiknum á Anfield í kvöld kl. 18.45.

„Ég hef mikla trú á að við höfum allt sem þarf til að fara í gegnum 180 mínútur gegn Chelsea og fara í einn úrslitaleikinn í viðbót. Okkar lið gefst aldrei upp. Sum lið missa taktinn og gefa eftir þegar á móti blæs en þannig er það ekki hjá okkur. Við berjumst og seiglumst og trúum á sjálfa okkur til að komast í gegnum hvað sem er, hér á Anfield eða á þeirra heimavelli, til að fara í úrslitaleik keppninnar," sagði Gerrard við Sky Sports.

„Þetta er stærsti titill sem keppt er um, það er nóg að líta yfir þann fjölda stórliða sem hafa keppt um hann árum saman en aldrei unnið. Það er enginn leikmaður í Evrópu, knattspyrnustjóri eða stuðningsmaður, sem myndi halda öðru fram en að Meistaradeildin sé toppurinn í fótboltanum. Þess vegna erum við staðráðnir í að vera á staðnum þegar leikið er um bikarinn," sagði Gerrard.

Í fyrri tvö skiptin sem liðin hafa mæst á þessu stigi keppninnar hefur seinni leikurinn verið á Anfield. Nú er seinni leikurinn á Stamford Bridge, heimavelli Chelsea, en Gerrard kveðst ekki hafa áhyggjur af því.

„Það hefur mikið verið gert úr því að við þurfum að spila seinni leikinn á útivelli og margir segja að það gefi Chelsea ákveðið forskot. En Stamford Bridge er ekki sami stóri heimavöllurinn og Anfield, og það mun ekkert trufla okkur að spila þar. Ef við þurfum að fara þangað og sækja sigur, munum við gera það," sagði Steven Gerrard.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert