Manchester United skrefi nær titlinum eftir 4:1 sigur á West Ham

Cristiano Ronaldo fagnar öðru marki sínu ásamt Rio Ferdinand á …
Cristiano Ronaldo fagnar öðru marki sínu ásamt Rio Ferdinand á Old Trafford í dag. Reuters

Manchester United steig skrefi nær enska meistaratitlinum þegar liðið sigraði West Ham, 4:1, á Old Trafford í dag. Með sigrinum náði United þriggja stiga forskoti á Chelsea og vinni liðið Wigan í síðustu umferðinni verður Manchester United meistari í 17. sinn.

Arsenal á þar með ekki lengur möguleika á að verða meistari í ár og fari svo að Chelsea tapi fyrir Newcastle á sunnudaginn eru úrslitin í meistarabaráttunni ráðin.

Manchester United hafði mikla yfirburði gegn Íslendingaliðinu í síðasta heimaleik sínum og það breytti engu þó svo að liðið léki manni færri síðustu 50 mínúturnar eftir að Nani var rekinn af velli.

Bein textalýsing frá leiknum er hér að neðan:

3. MARK!! Cristiano Ronaldo kemur Manchester United í 1:0 með föstu skoti neðst í markhornið eftir frábæran sprett þar sem hann lék á tvo varnarmenn West Ham. 39. mark Ronaldo á tímabilinu og 29 þeirra hafa komið í úrvalsdeildinni.

7. Patrive Evra bjargar á línu skalla frá Dean Ashton eftir hornspyrnu.

19. Góð sókn hjá Manchester United endar með föstu skoti frá Tevez en hinn ungi Tomkins bjargar á elleftu stundu fyrir West Ham.

24. MARK!! Ronaldo er aftur á ferðinni og kemur í United í 2:0. Eftir fyrirgjöf frá Owen Hargreaves náði Portúgalinn að stýra boltanum í netið með hnénu. 40. mark Ronaldo á leiktíðinni staðreynd.

26. MARK!! Carlos Tevez kemur Manchester United í 3:0 með þrumufleyg af um 25 metra færi sem Robert Green átti enga möguleika á að verja. Nokkrir stuðningsmenn West Ham klappa fyrir Argentínumanninum sem lék með West Ham í fyrra og var liðinu gulls ígildi.

28. MARK!! Dean Ashton minnkar muninn í 3:1 fyrir Íslendingaliðið með glæsilegri hjólhestaspyrnu.

37. RAUTT SPJALD!! Portúgalinn Nani fær að líta rauða spjaldið eftir viðskipti við Lucas Neill fyrirliða West Ham. Nani skallar Neill í andlitið og er réttilega sendur í bað. Mike Riley dómari sá ekki atvikið en fékk ábendingu frá aðstoðarmani sínum.

Mike Riley hefur flautað til leikhlés á Old Trafford þar sem heimamenn í Manchester United eru 3:1 yfir en eru manni færri eftir að Nani var rekinn af velli.

Síðari hálfleikur er hafinn. Engar breytingar voru gerðar á liðunum í hálfleiknum.

52. West Ham gerir breytingu á liði sínu. Nolberto Solano kemur inná fyrir Louis Boa Morte sem á við meiðsli að stríða.

56. West Ham gerir aðra breytingu. Markaskorarinn Dean Ashton gengur ekki heill til skógar og er kallaður af velli og inná fyrir hann kemur Carlton Cole.

59. MARK!! Michael Carrick, sem hefur haft frekar hægt um sig, kemur United í 4:1. Carrick komst óáreittur upp að vítateig West Ham og skoraði með þrumskoti sem hafði viðkomu í Lucas Neill á leiðinni í netið.

61. Ronaldo fær gult spjald fyrir brot og Ryan Giggs er mættur til leiks og tekur stöðu Park á miðjunni.

64. Sir Alex Ferguson ákveður að hvíla Ronaldo og kallar Portúgalann frábæra af velli. Ronaldo virðist ekkert sérlega ánægður með ákvörðun stjóra síns, vill líklega ná þrennunni. Darren Fletcher leysir Ronaldo af hólmi.

71. Darren Fletcher er hársbreidd frá því að skora 5 mark en United en eftir frábæra skyndsókn komst Fletcher í upplagt færi en viðstöðulaust skot hans fór í innanverða stöngina.

73. Paul Scholes er tekinn af velli og inná fyrir hann kemur John O'Shea.

Fyrir leikinn:

Byrjunarlið United er það sama og var í leiknum á móti Barcelona. 

Wayne Rooney og Nemanja Vidic eru fjarri góðu gamni í liði United en þeir eru enn að glíma við meiðsli sem þeir hlutu í leiknum við Chelsea um síðustu helgi.

West Ham hefur unnið Manchester United í þremur leikjum í röð en eftir að hafa tapað 15 leikjum í röð gegn Manchester United sem stjóri Charlton hefur Alan Curbishley unnið alla þrjá leikina gegn United sem stjóri West Ham.

Man Utd hefur unnið 16 af síðustu 17 heimaleikjum. Eini tapleikur liðsins í deildinni á þesari leiktíð var gegn Manchester City í febrúar.

Carlos Tevez skoraði sigurmark West Ham gegn United á Old Trafford fyrir ári síðan og tryggði þar með West Ham tilverurétt í úrvalsdeildinni.

Man Utd: Van der Sar - Hargreaves, Ferdinand, Browen, Evra - Park, Carrick, Scholes, Nani - Ronaldo, Tevez. Varamenn: Anderson, Giggs, Fletcher, O'Shea, Kuszczak.

West Ham: Green - Pantsil, Neill, Tomkins, McCartney - Noble, Parker, Mllins, Boa Morte - Ashton, Zamara. Varamenn: Cole, Solano, Walker, Collison, Sears

Cristiano Ronaldo fagnar öðru marki sínu á Old Trafford í …
Cristiano Ronaldo fagnar öðru marki sínu á Old Trafford í dag. Reuters
Carlos Tevez er í byrjunarliðinu gegn sínum gömlu félögum í …
Carlos Tevez er í byrjunarliðinu gegn sínum gömlu félögum í West Ham. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert