Wenger: Viljum ekki missa fleiri

Arsene Wenger ætlar sér titla næsta vetur.
Arsene Wenger ætlar sér titla næsta vetur. Reuters

Arsene Wenger, knattspyrnustjóri Arsenal, sagði á fundi með hluthöfum félagsins að hann vonaðist eftir því að engir leikmanna sinna færu að fordæmi Mathieu Flaminis og yfirgæfu félagið vegna hærri launa annars staðar.

Aliaksandr Hleb hefur ítrekað verið orðaður við Inter Mílanó að undanförnu en Wenger leggur mikla áherslu á að halda honum hjá félaginu.

„Launin sem í boði eru gera okkur erfitt fyrir en við réðum ekki við stöðuna hjá Flamini því þegar leikmaður er með útrunninn samning getur hann skrifað undir hvar sem er. Það voru mér mikil vonbrigði að hann skyldi fara en ég vona að hin 95 prósentin af liðinu segi við sjálfa sig að við höfum tapað naumlega og getum náð lengra.

Þegar leikmenn okkar eru ekki tilbúnir til að reyna að stíga skrefinu lengra, heldur fara í burt vegna hærri launa, eru það fyrir mína parta mestu vonbrigðin. Þetta var svo naumt, við vorum yfir gegn Manchester Untied, við vorum yfir gegn Chelsea og vorum yfir gegn Liverpool í Meistaradeildinni, og í öll skiptin töpuðum við smávægilegri einbeitingu og misstum af sigrinum. Nú þurfum við að snúa blaðinu við og sýna að við séum sigurvegarar. Það er stóra markmiðið hjá liðinu," sagði Wenger á fundinum.

„Við viljum halda Hleb, við viljum að hann verði í okkar liði á næsta tímabili. Svo einfalt er það. Við höfum misst einn leikmann og viljum ekki missa fleiri," sagði Wenger.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert