Tíundi titillinn hjá Ferguson

Alex Ferguson, Rio Ferdinand og Edwin van der Sar fagna …
Alex Ferguson, Rio Ferdinand og Edwin van der Sar fagna sigrinum í dag. Reuters

Alex Ferguson, knattspyrnustjóri Manchester United, fagnaði sínum tíunda meistaratitli með félaginu í dag. Hann hefur semsagt landað tíu af þeim 17 titlum sem Manchester United hefur unnið í sögunni. Ferguson sagði eftir sigurinn á Wigan að metin skiptu sig ekki máli.

„Ég sagði fyrir leikinn að ég velti ekki einhverjum metum fyrir mér. Þetta snýst um að vinna meistaratitla og bikara, það er aðalmálið. Ég er í frábæru félagi og á þar með auðveldara um vik en aðrir í þessu starfi," sagði Ferguson við BBC.

Hann hrósaði Wigan fyrir góðan leik. „Þetta var mjög erfiður leikur. Við lékum vel mestallan tímann en það voru nokkur augnablik sem tóku á taugarnar. Ég var hæstánægður þegar við gerðum annað markið. Þar með hefur Ryan Giggs unnið 10 titla, sem er stórkostlegt," sagði Ferguson og taldi að nú væri innan seilingar að jafna árangur Liverpool sem hefur oftast orðið enskur meistari allra, 18 sinnum.

„Ég hugsa að við náum því, við erum með ungt lið sem á nóg inni," sagði þessi sigursæli Skoti.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert