Ætlar að fá Ronaldo til Man.City og skáka öllum

Sulaiman Al-Fahim, sem í  gær keypti enska knattspyrnufélagið Manchester City, ætlar að gera það strax að stærsta félagi heims. Hann sagði í dag að hann ætlaði að bjóða Manchester United 135 milljónir punda fyrir Cristiano Ronaldo í janúar og ná í 18 sterka leikmenn til félagsins. Í þeim hópi er talið að séu menn á borð við Fernando Torres og Cesc Fabregas.

Al-Fahim og hans samstarfsaðilar sem mynda fjárfestingafélagið Abu Dhabi United Group, keyptu City af Thaksin Shinawatra, fyrrum forsætisráðherra Tælands, í gær. Þeir brettu strax upp ermar og gerðu tilboð í fjóra sterka leikmenn og gómuðu einn þeirra. Það er Robinho, sem þeir keyptu af Real Madrid fyrir 32,5 milljónir punda, sem er breskt met. Það met slá þeir rækilega í janúar ef marka má orð þeirra.

Al-Fahim er sagður tíu sinnum ríkari en sjálfur Roman Abramovich, eigandi Chelsea, og er tilbúinn til að vinna samkvæmt því.

„Ronaldo hefur sagt að hann vilji spila með stærsta félagi heims og við munum komast að því í janúar hvort hann standi við þau orð sín. Ég hugsa að það kosti okkur um 135 milljónir punda að fá hann. En hvers vegna ekki? Við verðum stærsta félag heims, stærri en bæði Real Madrid og Manchester United," sagði Al-Fahim við The Guardian í dag.

„Við ætlum að koma upp liði sem getur unnið Meistaradeild Evrópu. Markmiðið er ekki að eyða peningunum í hvern sem er, en ef við getum fengið til okkar bestu leikmenn í heimi, og knattspyrnustjórinn okkar vill fá þá, munum við gera það," sagði nýi eigandinn. Mark Hughes, sem tók við liði Manchester City í sumar, er væntanlega byrjaður að setja saman innkaupalistann.

Það yrði áfall fyrir stuðningsmenn Manchester United að sjá Ronaldo …
Það yrði áfall fyrir stuðningsmenn Manchester United að sjá Ronaldo færa sig yfir til erkifjendanna í City. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert