Ferguson hefur engar áhyggjur

Ferguson fagnaði Evrópumeistaratitli í vor.
Ferguson fagnaði Evrópumeistaratitli í vor. Reuters

Sir Alex Ferguson, knattspyrnustjóri Manchester United, lætur sér í léttu rúmi liggja lætin í kringum eigendaskiptin hjá erkifjendunum í Manchester City. Nýir eigendur City hafa sagst ætla að festa kaup á fjölda stórstjarna, þar á meðal Cristiano Ronaldo.

„Ég get ekki haft áhyggjur,“ sagði Ferguson í samtali við fjölmiðla í Sviss þar sem hann fundar ásamt þjálfurum annarra helstu félagsliða heims í höfuðstöðvum knattspyrnusambands Evrópu

„Það koma alltaf upp erfiðar áskoranir í fótboltanum. Fyrir nokkrum árum var það Chelsea og þar áður Arsenal, og hvaðan sem þessar áskoranir koma verðum við einfaldlega að takast á við þær. Þetta breytir engu,“ sagði Ferguson.

Eigendur City hafa gefið í skyn að þeir ætli sér að bjóða 135 milljónir punda, tæplega 21 milljarð króna, í Ronaldo þegar félagaskiptaglugginn opnar í janúar. Ferguson gefur lítið fyrir þær vangaveltur.

„Þeir geta talað,“ sagði Ferguson, sem segir það erfitt hlutskipti fyrir Mark Hughes að stýra City undir þessum kringumstæðum þar sem miklar kröfur verði gerðar á góðan árangur.

„Fyrir ungan stjóra er þetta eflaust erfitt. Það er ekki hægt að bera þetta saman við það þegar ég byrjaði því knattspyrnuheimurinn er orðinn allt öðruvísi. Það er farið að síga á seinni hlutann hjá mér í þessu starfi og ég hef upplifað allar þessar breytingar svo þetta slær mig ekki út af laginu,“ sagði Ferguson.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert