David Beckham til liðs við AC Milan á láni

Beckham bauðst að ganga til liðs við Milan áður en …
Beckham bauðst að ganga til liðs við Milan áður en hann fór til LA Galaxy. Nú hefur það gengið eftir. Reuters

David Beckham, sem leikur með LA Galaxy í Bandaríkjunum, mun ganga til liðs við ítalska stórliðið AC Milan í janúar, að láni í sex mánuði, samkvæmt BBC Sport. Beckham hafði boðist að æfa með liðinu, en tímabilinu í MLS deildinni lýkur um næstu helgi, en Galaxy liðinu mistókst að komast í úrslitakeppnina. 

„Beckham hefur valið Milan. Liðið okkar er firnasterkt, en Beckham gefur okkur meiri vídd, eitthvað extra,“ sagði Adriano Galliani, varaforseti Milan.

Ljóst er að ef Milan heldur Beckham til loka tímabilsins í Evrópu, missir hann af sex fyrstu vikum næsta tímabils í MLS-deildinni, sem hlýtur að vera óhugsandi, þegar hugsað er til upphæðarinnar sem Galaxy menn greiddu fyrir þjónustu Beckham. Því gæti farið svo, að Beckham leiki ekki með Milan í maí, þegar mikilvægustu leikirnir fara fram, gangi liðinu vel.

Leiða má líkur að því að Beckham hafi viljað halda sér í formi til að vera gjaldgengur í enska landsliðið, en Capello hefur sagst aðeins ætla velja Beckham í liðið sé hann í leikformi, enda orðinn 33 ára gamall. Beckham vantar aðeins tvo leiki til að slá met Bobby Moore, sem er leikjahæsti útileikmaður enska landsliðsins, með 108 leiki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert