Evra í fjögurra leikja bann

Patrice Evra, til vinstri, fer í fjögurra leikja bann.
Patrice Evra, til vinstri, fer í fjögurra leikja bann. Reuters

Enska knattspyrnusambandið úrskurðaði í dag Patrice Evra, varnarmann Manchester United, í fjögurra leikja bann vegna atviks eftir leik gegn Chelsea síðasta vor. Manchester United hefur mótmælt banninu og íhugar áfrýjun.

Evra var jafnframt sektaður um 15 þúsund pund og Chelsea var sektað um 25 þúsund pund fyrir að standa ekki nægilega vel að öryggisgæslu.

Evra lenti í útistöðum við vallarstarfsmanninn Sam Bethell á Stamford Bridge þegar hann og félagar hans í United voru að "hlaupa sig niður" á vellinum að leik loknum. Knattspyrnusambandið segir að Evra hafi slegið til vallarstarfsmannsins og hitt á höfuð hans.

Myndir voru teknar af Bethell þar sem hann reiddi hnefa í átt að Evra en var haldið af tveimur starfsmönnum Chelsea.

Evra viðurkenndi að hafa ýtt við öðrum vallarstarfsmanni með bringunni en Manchester United hélt því fram að Bethell hefði viðhaft kynþáttaníð gagnvart Evra. Í úrskurði knattspyrnusambandsins segir að engar sannanir séu fyrir því.

Bannið tekur gildi þann 22. desember og samkvæmt því leikur Evra ekkert með United um jól og áramót.

„Manchester United lýsir yfir vonbrigðum með þennan úrskurð og telur refsingar í garð Evra óhóflegar. Manchester United og Patrice munu velta öllum möguleikum fyrir sér um leið og búið verður að skoða til fullnustu röksemdirnar fyrir úrskurðinum og munu ekki gefa meira út um málið," segir í yfirlýsingu sem birtist á vef Manchester United í kvöld.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert