Viðurkenndu vanmátt Arsenal

Kieran Gibbs hjá Arsenal reynir að leika á Fucile Perdomo …
Kieran Gibbs hjá Arsenal reynir að leika á Fucile Perdomo hjá Porto í leiknum í kvöld. Reuters

Manuel Almunia fyrirliði Arsenal og Arsene Wenger knattspyrnustjóri félagsins voru á einu máli þegar þeir ræddu við fréttamenn í Porto í kvöld um að sigur Portúgalanna, 2:0, hefði verið afar verðskuldaður. Porto vann þar með riðilinn í Meistaradeild Evrópu en Arsenal endaði í öðru sæti. Bæði lið voru þegar komin áfram.

„Við vorum hreinlega ekki með í leiknum. Boltinn gekk illa manna á milli, við töpuðum honum of oft og það bauð ekki upp á neitt nema tap. Við biðum lægri hlut, 2:0, og áttum aldrei skot á markið. Við vorum aldrei í takti í kvöld. Nú verðum við að horfa í eigin barm og skoða hvað fór úrskeiðis, og þá skiptir ekki máli hvort við vorum með sterkasta liðið eða ekki," sagði markvörðurinn Almunia sem bar fyrirliðabandið í fjarveru Cesc Fabregas.

„Þetta var allt í lagi þar til Porto komst yfir. Það voru hinsvegar vonbrigði að eftir það náðum við aldrei að skapa hættu, misstum boltann of oft og áttum yfir höfði okkar að fá á okkur fleiri mörk," sagði Wenger, sem kvaðst ekki sjá eftir því að hafa hvílt lykilmenn. „Þetta þýðir erfiðari baráttu í 16-liða úrslitunum en við erum tilbúnir í þann slag og eigum möguleika gegn öllum liðum í þessari keppni," sagði franski stjórinn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert