West Ham fær lánaðan Tékka

Gianfranco Zola er á góðri leið með West Ham og …
Gianfranco Zola er á góðri leið með West Ham og hefur náð að styrkja liðið síðustu daga. Reuters

Íslendingafélagið West Ham fékk liðsstyrk í kvöld þegar það samdi við rússneska félagið Spartak Moskva um lán á tékkneska landsliðsmanninum Radoslav Kovac, út þetta keppnistímabil.

Kovac er 29 ára gamall, fyrirliði Spartak, og getur bæði leikið sem tengiliður og sem miðvörður. Hann er geysilega reyndur og lék með Tékkum í úrslitakeppni HM í knattspyrnu í Þýskalandi 2006, og aftur í úrslitakeppni EM í Austurríki og Sviss síðasta sumar. Þá hann að baki fjölmarga leiki í Evrópukeppni, bæði í Meistaradeild Evrópu og UEFA-bikarnum.

„Hann eykur enn frekar samkeppnina á sterkri miðjunni hjá okkur og ég er afar ánægður með að fá hann í okkar hóp. Radoslav býr yfir geysilegri reynslu sem ætti að hjálpa okkur að ná þeim markmiðum sem við höfum sett okkur í vetur," sagði Gianfranco Zola, knattspyrnustjóri West Ham, á vef félagsins.

Kovac er annar leikmaðurinn sem West Ham fær í þessari viku en áður hafði félagið krækt í Savio Nsereko, 19 ára bráðefnilegan sóknarmann frá Brescia á Ítalíu, en hann er þýskur unglingalandsliðsmaður.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert