Guðjón útnefndur knattspyrnustjóri mánaðarins

Guðjón Þórðarson knattspyrnustjóri Crewe.
Guðjón Þórðarson knattspyrnustjóri Crewe. Ljósmynd/The Sentinel

Guðjón Þórðarson var í dag útnefndur knattspyrnustjóri febrúarmánaðar í ensku 2. deildinni í knattspyrnu. Hann stjórnaði Crewe Alexandera í fimm leikjum í mánuðinum og vann liðið fjóra þeirra og komst upp úr fallsæti í fyrsta sinn á leiktíðinni.

,,Ég er mjög ánægður með hvernig leikmenn hafa svarað því sem ég hef lagt fyrir þá. Þeir hafa lagt hart að sér og sú vinna hefur skilað sér. Við höfum náð góð úrslitum og komist úr fallsæti,“ segir Guðjón á vef félagsins.

,,Ég hafði alltaf trú á að ég gæti hjálpað Crewe og komið því úr fallsæti en verkefninu er hvergi nærri lokið. Það er langur vegur frá og við eigum enn mikla vinnu fyrir höndum. Það eru jákvæðir hlutir í gangi hjá okkur og við þurfum að byggja ofan á þá góðu hluti sem hafa verið gerðir síðustu vikurnar,“ segir Guðjón en hans menn töpuðu þremur dýrmætum stigum í fyrrakvöld þegar þeir lágu fyrir Carlisle á heimavelli.

Í 1. deildinni varð var Chris Coleman hjá Coventry fyrir valinu en Aron Einar Gunnarsson og félagar hans í Coventry-liðinu töpuðu ekki leik í febrúar og unnu toppliðin Wolves og Birmingham auk þess að slá Blackburn út í bikarkeppninni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert