Hughes verður áfram með Man.City

Mark Hughes virðist geta andað rólega.
Mark Hughes virðist geta andað rólega. Reuters

Khaldoon Al Mubarak, stjórnarformaður Manchester City, kveðst ekkert skilja í vangaveltum enskra fjölmiðla um hver taki við starfi knattspyrnustjóra félagsins. Ekki standi til að breyta neinu og Mark Hughes verði áfram við stjórnvölinn hjá City þegar næsta tímabil hefst.

José Mourinho og Frank Rijkaard eru meðal þeirra sem orðaðir hafa verið við starfið undanfarnar vikur en Al Mubarak segir að það hafi engu breytt þó City hafi mistekist að vinna sér inn Evrópusæti fyrir næsta tímabil.

„Ég er mjög undrandi á öllum þessum vangaveltum því ég hef alltaf verið mjög ákveðinn í öllum umræðum um knattspyrnustjóra okkar. Ég hef ávallt staðfest að við bærum fyllsta traust til Marks, og það vil ég endurtaka. Mark verður okkar knattspyrnustjóri á næsta tímabili, það hefur ekkert breyst. Það hefur verið sett ótrúleg og ónauðsynleg pressa á Mark frá aðilum utan félagsins. Ég tel að við höfum þegar náð langt og stefnum á að ná góðum árangri næsta vetur. Við höfum bætt margt síðan í janúar og getum nú byrjað að einbeita okkur að næsta tímabili.

Þetta félag hefur verið með 10 knattspyrnustjóra á síðustu 15 árum, auk eigendaskipta. Það er varla hægt að segja að hér hafi verið eðlilegt undirbúningstímabil. Nú verður slíkt raunin, við byggjum á eins árs reynslu sem styrkir okkur. Næsta ár verður betra, og það er kominn meiri stöðugleiki í félagið," sagði Al Mubarak við Manchester Evening News.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert