Framtíð Ronaldo hjá United enn og aftur í óvissu

Cristiano Ronaldo súr á svip eftir leikinn gegn Barcelona í …
Cristiano Ronaldo súr á svip eftir leikinn gegn Barcelona í gær. Reuters

Enn og aftur eru fjölmiðlar á Englandi og víðar uppfullir af vangaveltum um framtíð Cristiano Ronaldo hjá Manchester United eftir tap liðsins gegn Barcelona í úrslitum Meistaradeildarinnar í gærkvöld. Þegar Ronaldo var inntur eftir því hvort hann yrði áfram Old Trafford á næstu leiktíð svaraði Portúgalinn; ,,Ég veit það ekki".

Ronaldo vildi ekkert ræða frekar framtíð sína en nífaldir Evrópumeistarar Real Madrid eru eins og gammar og vilja ólmir fá hann í sínar raðir enda ætla Madridingar að styrkja lið sitt verulega eftir dapurt gengi á þessu tímabili.

,,Nú er framtíð mín með landsliðinu. Við þurfum að komast á sigurbraut og koma okkur í betri stöðu í undankeppninni. Hvað félagslið varðar þá vil ég ekkert ræða um það. Ég þarf á hvíld að halda. Ég er þreyttur enda búinn að spila mjög marga leiki á tímabilinu og hef verið undir miklu álagi. Það kemur í ljós hvað framtíðin ber í skauti sér,“ sagði Ronaldo sem var eins og allir leikmenn Englandsmeistaranna hundfúll með frammistöðu liðsins í Róm í gær.

,,Það gekk allt á afturfótunum hjá okkur og ég hef ekki skýringu á hvers vegna. Við leikmennirnir spiluðum illa og leikskipulagið var ekki nógu gott. Ég tek ekki frá Börsungum að þeir léku vel en þeir voru líka svolítið heppnir að vera hér því Chelsea átti ekki skilið að tapa gegn þeim. Ég vil óska Barcelona til hamingju en hvað sjálfan mig varðar þá er ég sannfærður um að ég eigi eftir að spila fleiri úrslitaleiki,“ sagði Ronaldo.



mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert