Hermann tók tilboði Portsmouth

Hermann Hreiðarsson leikur áfram með Portsmouth.
Hermann Hreiðarsson leikur áfram með Portsmouth. mbl.is/ Kristinn

Hermann Hreiðarsson, landsliðsfyrirliði, tók í dag tilboði enska knattspyrnufélagsins Portsmouth um eins árs samning en hann hefur spilað með því undanfarin tvö ár. Hermann staðfesti þetta við mbl.is rétt í þessu ásamt umboðsmanni sínum, Ólafi Garðarssyni.

Portsmouth bauð Hermanni fyrir skömmu eins árs samning, eins og framkvæmdastjóri félagsins, Peter Storrie, sagði við enska fjölmiðla.

„Það lá í raun í loftinu að ég myndi semja aftur við Portsmouth þótt ýmsilegt annað hafi verið í deiglunni. Okkur fjölskyldunni líður frábærlega á þessum slóðum, við höfum verið þarna í tvö skemmtileg ár, og svo tel ég mig eiga nóg inni til að spila áfram í úrvalsdeildinni, sem að sjálfsögðu vóg þungt," sagði Hermann.

Fjallað hefur verið um áhuga nokkrra félaga á honum, m.a. Middlesbrough, sem féll úr úrvalsdeildinni á dögunum, og skosku stórveldanna Celtic og Rangers.

„Það var Middlesbrough sem sýndi mér mestan áhuga og svo voru þreifingar varðandi bæði Celtic og Rangers, en það fór ekki eins langt. Þar voru engar viðræður komnar í gang, heldur aðeins búið að ræða um að þeir vildu fá mig þegar þeir væru búnir að selja aðra leikmenn úr sínum hópi."

Ekki hefur verið ráðinn nýr knattspyrnustjóri hjá Portsmouth en Paul Hart tók við liðinu til bráðabirgða eftir að Tony Adams hætti störfum síðla vetrar.

„Það var meðal annars þess vegna sem ég vildi bíða með endanlega ákvörðun en forráðamenn Portsmouth fullvissuðu mig um, eftir því sem þeir gátu, að þeir ætluðu sér að styrkja liðið fyrir næsta tímabil og markmiðið væri að gera áfram góða hluti í úrvalsdeildinni. Það sem þeir höfðu fram að færa höfðaði til mín," sagði Hermann Hreiðarsson.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert