Wenger búinn með peningana?

Wenger mun áfram treysta á unga efnilega leikmenn, fjárhagurinn býður …
Wenger mun áfram treysta á unga efnilega leikmenn, fjárhagurinn býður ekki upp á annað. Reuters

Arséne Wenger, knattspyrnustjóri Arsenal í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu, gæti þegar hafa þurrausið sjóði félagsins sem ætlaðir voru til leikmannakaupa í sumar. Wenger hefur aðeins keypt einn leikmann, Thomas Vermaelen á 10 milljónir punda, en næststærsti hluthafi félagsins segir peninginn búinn.

Rússinn Alisher Usmanov, sem er næststærsti hluthafinn í Arsenal, segir í tilkynningu frá fjárfestingarfélagi sínu: „Stjórnin er sannfærð um að félagið hafi nægilegt fé milli handanna til að styrkja liðið. Við deilum ekki þeirri skoðun.“

Wenger sagði sjálfur þann 24. júní að hann væri „þreyttur á fólki sem heldur að við eigum 100 milljónir í bankanum sem ég kjósi að nota ekki. Hvernig getur fólk haldið það? Við eigum ekki 100 milljónir til að dæla í leikmannakaup, og verðum því að halda stefnu, því ég veit að þetta lið er á réttri leið.“

Arsenal endaði í 4. sæti í deildinni á síðustu leiktíð, 18 stigum á eftir Englandsmeisturum Manchester United. Þeir komust í fjórðungsúrslit Meistaradeildarinnar og ensku bikarkeppninnar, en liðið hefur ekki unnið titil síðan 2005.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert