Gylfi skoraði og Brynjar lagði upp mark - Liverpool úr leik

Shane Long skorar sigurmark Reading með skalla eftir fyrirgjöf Brynjars …
Shane Long skorar sigurmark Reading með skalla eftir fyrirgjöf Brynjars Björns Gunnarssonar. Reuters

Reading lagði Liverpool 2:1 á Anfield í framlengdum leik í 3. umferð ensku bikarkeppninnar í knattspyrnu í kvöld. Brynjar Björn Gunnarsson lagði upp sigurmark Reading í fyrri hálfleik framlengingar. Staðan að loknum venjulegum leiktíma var 1:1, en Gylfi Sigurðsson jafnaði úr vítaspyrnu í uppbótartíma venjulegs leiktíma.

Ryan Bertrand leikmaður Reading varð fyrir því ólani að skora sjálfsmark í uppbótartíma í fyrri hálfleik. Steven Gerrard sendi boltann innað markinu en boltinn fór í Bertrand og í netið, 1:0.

Reading fékk mun betri færi en Liverpool í leiknum en liðið fór illa með ein fjögur dauðafæri í venjulegum leiktíma. Þegar uppbótartíminn var að renna út var varamaðurinn Shane Long felldur í vítateig Liverpool. Gylfi fór á vítapunktinn og ískaldur og yfirvegaður sendi hann boltann í netið, 1:1.

Það voru síðan mögnuð tilþrif frá Brynjari Birni Gunnarssyni sem gerðu út um leikinn. Brynjar, sem lék geysilega vel í stöðu hægri bakvarðar, lék Yossi Benayoun og Emiliano Insua grátt á hægri kantinum og átti síðan frábæra fyrirgjöf innað markteig þar sem Long kom á ferðinni og skoraði með skalla, 1:2.

Íslendingarnir þrír, Gylfi, Brynjar og Ívar Ingimarsson, léku allir allar 120 mínúturnar með Reading sem er komið í 4. umferð og fær þar heimaleik gegn úrvalsdeildarliði Burnley, liði Jóhannesar Karls Guðjónssonar.

Fernando Torres og Steven Gerrard fóru báðir meiddir af velli. Torres eftir hálftíma leik, eftir að hann datt í návígi, og Gerrard kom ekki aftur til leiks eftir leikhlé. Hann var sagður hafa fundið fyrir tognun í læri.

Kári Árnason og félagar hans í Plymouth eru úr leik eftir 3:0 tap gegn Newcastle og skoraði Peter Lövenkrands öll mörkin. Kári lék allan leikinn með Plymouth.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert