Kuyt tryggði Liverpool sigur á Everton

Dirk Kuyt og Steven Pienaar í baráttunni á Anfield í …
Dirk Kuyt og Steven Pienaar í baráttunni á Anfield í dag. Reuters

Dirk Kuyt tryggði Liverpool 1:0 sigur á Everton í grannaslag á Anfield í dag og með sigrinum komst Liverpool uppfyrir Tottenham í fjórða sæti ensku úrvalsdeildarinnar. Kuyt skoraði sigurmarkið með skalla á 55. mínútu en Liverpool lék manni færri í 55 mínútur eftir að Grikkjanum Sotiros Kyrgiakos var vikið af velli.

90. Leik lokið með sanngjörnum sigri Liverpool, 1:0.

89. Steven Pienaar leikmaður Everton fær sitt annað gula spjald og er er rekinn af leikvelli.

70. Liverpool er yfir, 1:0, og þrátt fyrir að vera manni færri hafa heimamenn ágæt tök á leiknum. Everton hefur ekki náð að færa sér liðsmuninn í nyt og hafa ekki fundið glufur á vel skipulagðri vörn Liverpool.

55. MARK!! Dirk Kuyt er búinn að koma Liverpool yfir. Hollendingurinn skoraði með skalla af stuttu færi eftir vel tekna hornspyrnu frá Steven Gerrard. Þetta er 50. markið sem Kuyt skorar fyrir Liverpool.

45. Hálfleikur á Anfield, 0:0. Leikurinn hefur ekki náð neinu flugi og lítið um góð tilþrif. Steven Gerrard komst næst því að skora en skot hans beint úr aukaspyrnu undir lok fyrri hálfleiks fór í þverslá og yfir markið. Fjögur gul spjöld fóru á loft í fyrri háfleik og eitt rautt.

34. rautt spjald!!. Gríski varnarmaðurinn Sotiros Kyrgiakos fær að líta rauða spjaldið fyrir brot á Fellaini. Strangur dómur hjá Martin Atkinson því ekki var annað að sjá en að Fellaini hefði traðkað á Grikkjanum en hann slapp og fékk ekki einu sinni gult spjald. Fellaini meiddist eftir tæklinguna og þarf að hætta leik og tekur Mikel Arteta stöðu hans á miðjunni.

30. Það er enn markalaust á Anfield og sem fyrr er baráttan í fyrirúmi þar sem ekkert er gefið eftir. Engin hættuleg marktækifæri hafa litið dagsins ljós en heimamenn hafa verið öllu sterkari aðilinn. Þrjú gul spjöld hafa farið á loft.

15. Lítið hefur gerst á fyrsta stundarfjórðung leiksins. Liðin eru að þreifa fyrir sér og baráttan allsráðandi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert