Ferguson hundóánægður með dómarana

Drogba skoraði umdeilt mark í dag.
Drogba skoraði umdeilt mark í dag. Reuters

Sir Alex Ferguson stjóri Manchester United var afar óhress eftir tapið gegn Chelsea í toppslag ensku úrvalsdeildarinnar í dag. Hann var furðu lostinn yfir því að seinna mark þeirra bláklæddu skyldi fá að standa.

Didier Drogba gerði seinna mark Chelsea en af sjónvarpsupptökum sást greinilega að hann var rangstæður.

„Ég skil ekki hvernig þetta gat gerst beint fyrir framan nefið á línuverðinum. Hann [Drogba] er ekki nálægt neinum en samt tekst honum að taka ranga ákvörðun. Í leik af þessari stærðargráðu verða dómararnir að vera í hærri gæðaflokki en þeir sem dæmdu í dag. Þetta var afar slæm frammistaða,“  sagði Ferguson sem vildi þó ekki skamma Mike Dean dómara fyrir að dæma ekki vítaspyrnu í leiknum.

„Ég veit ekki með þau tilvik en ég viðurkenni það að ég varð áhyggjufullur þegar ég sá að Mike Dean ætti að dæma,“ sagði Ferguson sem er ekki sérlega bjartsýnn í baráttunni um Englandsmeistaratitilinn.

„Það eru fimm leikir eftir, þeir hafa tveggja stiga forskot og hafa skorað fjórum mörkum betur en við. Þeir eru vissulega með töglin og hagldirnar. Ég er viss um að við munum svara þessu tapi í næstu leikjum en það gæti verið að það dugi okkur ekki að vinna þessa fimm leiki.“ 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert