Atlético og Fulham leika til úrslita

Zoltán Gera, Dickson Etuhu og Damien Duff fagna sigurmarki Gera …
Zoltán Gera, Dickson Etuhu og Damien Duff fagna sigurmarki Gera í leiknum í kvöld. Reuters

Atlético Madrid og Fulham leika til úrslita í Evrópudeild UEFA. Liverpool vann Atlético, 2:1, í framlengdum leik á Anfield. Samanlögð úrslit eru 2:2 en Spánverjarnir fara áfram á markinu sem þeir gerðu á útivelli í kvöld. Fulham lagði Hamburger SV, 2:1, í London og 2:1 samanlagt.

Alberto Aquilani og Yossi Benayoun komu Liverpool í 2:0 en Diego Forlan skoraði markið dýrmæta fyrir Atlético, 2:1.

Mladen Petric kom Hamburger SV yfir í London en Simon Davies og Zoltán Gera skoruðu með stuttu millibili eftir miðjan síðari hálfleik og tryggðu Fulham sigurinn, 2:1.

Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is:

120. Atlético Madrid leikur til úrslita gegn Fulham í Hamborg. Liverpool sigrar, 2:1, en það er ekki nóg. Samanlögð úrslit eru 2:2 og markið sem Diego Forlan skoraði í framlengingunni var dýrmætt, það fleytir Spánverjunum áfram.

112. Simao í dauðafæri í vítateig Liverpool, nær að lyfta  boltanum yfir José Reina markvörð, sem kemur vel á móti honum, en líka yfir markið.

105. Fyrri hálfleikur framlengingar búinn. Talsverð rekistefna varð í vítateig Atlético undir lokin. Dirk Kuyt og De Gea markvörður rákust saman og Alvaro Dominguez hrinti Kuyt í kjölfarið. Gult spjald á loft og Liverpoolmenn óhressir með litinn á því.

103. MARK Á ANFIELD, 2:1. Atlético er komið í lykilstöðu á Anfield. Diego Forlan skorar af stuttu færi eftir fyrirgjöf José Antonio Reyes frá hægri. Staðan 2:2 samanlagt og í þessari stöðu færi Atlético áfram á þessu marki á útivelli.

94. MARK Á ANFIELD, 2:0. Liverpool er komið með undirtökin í einvíginu. Yossi Benayoun fær sendingu inní vítateiginn vinstra megin frá Lucas Leiva og sendir hann í markhornið fjær. Staðan er 2:1 samanlagt fyrir Liverpool. Eitt mark myndi þó duga Atlético til að fara áfram.

91. Framlengingin er hafin á Anfield. Liverpool er yfir, 1:0, og staðan er 1:1 samanlagt.

90+4 FULHAM Í ÚRSLITALEIKINN. Fulham hefur sigrað Hamburger SV, 2:1, og leikur til úrslita í Evrópudeild UEFA gegn annaðhvort Liverpool eða Atlético Madrid. Magnað afrek hjá litla Lundúnaliðinu!! Þjóðverjarnir missa af því að spila úrslitaleikinn á eigin heimavelli.

90+3 Frank Rost markvörður HSV fær gula spjaldið fyrir að brjóta á Clint Dempsey leikmanni Fulham á miðjum vellinum!!

90+2 Flautað af á Anfield, 1:0 fyrir Liverpool. Þar með er staðan 1:1 samanlagt og því þarf að grípa til framlengingar.

81. Glen Johnson er nálægt því að koma Liverpool tveimur mörkum yfir, einleikur að vítateig og á hörkuskot sem De Gea ver vel í horn.

76. MARK í London, 2:1. Er enn eitt ævintýrið í uppsiglingu hjá Fulham. Zoltán Gera hefur skorað og komið enska liðinu í 2:1, og þá er staðan líka 2:1 samanlagt.

69. MARK í London, 1:1. Simon Davies jafnar fyrir Fulham eftir góða sendingu frá Danny Murphy. Þar með er allt galopið á Craven Cottage á ný. Hamburger myndi duga þessi lokastaða til að  fara áfram á marki á útivelli.

67. Valera hjá Atlético fær  gula spjaldið fyrir að brjóta á Dirk Kuyt. Í London eru líka komin tvö gul með stuttu millibili, á Jerome Boateng hjá HSV og Brede Hangeland hjá Fulham.

58. Bobby Zamora er farinn af velli hjá Fulham gegn HSV. Hann var tæpur fyrir leikinn vegna meiðsla í hásin og var sprautaður til að geta tekið þátt. Inná kemur Clint Dempsey, maðurinn sem kom inná gegn Juventus og skaut ítalska liðið útúr keppninni!

52. Gula spjaldið tvisvar á loft á Anfield á sömu mínútunni. Fyrst Alberto Aquilani fyrir peysutog og síðan Paulo Assuncao fyrir brot á Steven Gerrard.

46. Seinni hálfleikur hafinn, bæði á Anfield og Craven Cottage.

45. Hálfleikur á Anfield. Liverpool - Atlético 1:0 (1:1 samanlagt)

45. Hálfleikur í London. Fulham - Hamburger SV 0:1 (0:1 samanlagt)

44. MARK á Anfield. 1:0. Yossi Benayoun kemst að endamörkum hægra megin og sendir boltann útað vítateigslínu þar sem Alberto Aquilani kemur á ferðinni og sendir hann með jörðinni í hægra markhornið. Þar með er staðan 1:1 samanlagt, og ef þetta verða lokatölurnar, þarf að grípa til framlengingar.

42. Steven Gerrard hefur verið mjög áberandi í leik Liverpool. Hann fær gula spjaldið fyrir að brjóta á Sergio Agüero.

32. Daniel Agger miðvörður Liverpool skorar með skalla eftir aukaspyrnu, en er dæmdur rangstæður.

28. Mikil hætta í vítateig Liverpool. Agüero kemst framhjá Reina markverði vinstra megin í vítateignum og lyftir boltanum fyrir markið en þar vantar að Diego Forlan fylgi nægilega vel á eftir. Liverpool sleppur með skrekkinn.

26. Stórglæsileg sókn Liverpool sem splundrar vörn Atlético. Mascherano með fyrirgjöf frá hægri og Dirk Kuyt skýtur yfir úr algjöru dauðafæri á markteignum!

22. MARK í London. 0:1. Hamburger nær forystunni, Mladen Petric skorar. Stórglæsilegt skot úr aukaspyrnu af 25 m færi, beint í markvinkilinn! Nú þarf Fulham tvö mörk til að fara áfram.

19. Raúl Garcia hjá Atlético lætur José Reina markvörð Liverpool virkilega hafa fyrir hörkuskoti af 25 m færi. Reina slær boltann í horn.

3. Fulham kemst líka í dauðafæri í byrjun, strax á 3. mínútu. Rost markvörður Hamburger nær að verja frá Bobby Zamora.

1. Engu munar að Liverpool komist yfir eftir 10 sekúndna leik á Anfield. Yossi Benayoun kemst í færi hægra megin í vítateignum en De Gea nær að verja í horn.

Atlético vann Liverpool, 1:0, í fyrri leiknum en Hamburger SV og Fulham gerðu 0:0 jafntefli í Hamborg. Liðin sem standa uppi sem sigurvegarar í kvöld mætast í úrslitaleik í Hamborg 15. maí.

Liðin á Anfield eru þannig skipuð:

Liverpool: Reina, Mascherano, Carragher, Agger, Johnson, Gerrard, Lucas, Benayoun, Aquilani, Babel, Kuyt.
Varamenn: Cavalieri, Kyrgiakos, Ngog, Degen, El Zhar, Ayala, Pacheco.
Atlético Madrid:
De Gea, Valera, Dominguez, Perea, Antonio Lopez, Reyes, Paulo Assuncao, Raul Garcia, Simao, Agüero, Forlan.
Varamenn: Sergio Asenjo, Camacho, Jurado, Salvio, Juanito, Ujfalusi, Cabrera.

Liðin á Craven Cottage eru þannig skipuð:

Fulham: Schwarzer, Pantsil, Hangeland, Hughes, Konchesky, Davies, Murphy, Etuhu, Duff, Gera, Zamora.
Varamenn: Zuberbuhler, Nevland, Riise, Dempsey, Smalling, Greening, Dikgacoi.
Hamburger: Rost, Aogo, Mathijsen, Boateng, Demel, Pitroipa, Ze Roberto, Jarolim, Tesche, Petric, van Nistelrooy.
Varamenn: Hesl, Rozehnal, Guerrero, Berg, Arslan, Rincon, Schulz.

Yossi Benayoun kemur Liverpool í 2:0 í framlengingunni.
Yossi Benayoun kemur Liverpool í 2:0 í framlengingunni. Reuters
Ryan Babel og Alvaro Dominguez eigast við í leiknum í …
Ryan Babel og Alvaro Dominguez eigast við í leiknum í kvöld. Reuters
Mladen Petric fagnar eftir að hafa komið HSV yfir en …
Mladen Petric fagnar eftir að hafa komið HSV yfir en leikmenn Fulham eru daprir í bragði. Reuters
Steven Gerrard og Alvaro Dominguez eigast við í leiknum á …
Steven Gerrard og Alvaro Dominguez eigast við í leiknum á Anfield í kvöld. Reuters
Zoltán Gera hjá Fulham sækir að marki Hamburger en Joris …
Zoltán Gera hjá Fulham sækir að marki Hamburger en Joris Mathijsen er til varnar. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert