Burnley í Evrópudeild UEFA?

Þessi stuðningsmaður Burnley gæti farið á Evrópuleik með sínu liði …
Þessi stuðningsmaður Burnley gæti farið á Evrópuleik með sínu liði síðar á þessu ári. Reuters

Burnley er fallið úr ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu en nú er komin upp sú staða að ef Fulham vinnur Evrópudeild UEFA í vor á Burnley góða möguleika á að komast í keppnina á næsta tímabili.

Fulham mætir Hamburger SV í seinni undanúrslitaleik liðanna í London annað kvöld en liðin gerðu 0:0 jafntefli í Þýskalandi. Liverpool tekur á móti Atletico Madrid en sigurliðin mætast síðan í úrslitaleik keppninnar.

Flest bendir til þess að England verði ein þriggja Evrópuþjóða sem fær aukasæti í Evrópudeildinni í gegnum háttvísimat UEFA. Það skýrist endanlega í vor, en England er með góða stöðu í þriðja sæti eins og staðan er núna.

Þá yrði það efsta lið í háttvísimatinu innan Englands sem myndi fá aukasætið, að frádregnum þeim liðum sem þegar hafa tryggt sér þátttökurétt í Evrópumótunum.

Tottenham, Fulham, Manchester United og Chelsea eru í fjórum efstu sætum enska háttvísimatsins. Tottenham, United og Chelsea eru örugg með Evrópusæti og vinni Fulham Evrópudeildina fær félagið aðgang að henni á ný. Næsta lið í háttvísimati Englendinga er svo Burnley, sem mun leika í 1. deild á næsta keppnistímabili.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert