Zamora: Sárt að missa af HM

Bobby Zamora hefur leikið mjög vel í vetur.
Bobby Zamora hefur leikið mjög vel í vetur. Reuters

Bobby Zamora, sóknarmaður Fulham, er á leið í uppskurð á hásin. Meiðsli sem hann hefur glímt við undanfarið urðu til þess að hann komst ekki í landsliðshóp Englands fyrir HM í Suður-Afríku og Zamora kveðst afar vonsvikinn.

Hásinarmeiðslin hafa haldið verulega aftur af Zamora undanfarnar vikur en hann var lykilmaður í óvæntu gengi litla Lundúnaliðsins í Evrópudeild UEFA. Liðið tapaði 1:2 fyrir Atlético Madrid í úrslitaleiknum í Hamborg í gær og Zamora þurfti að fara snemma af velli vegna meiðslanna.

Fabio Capello landsliðsþjálfari ætlaði að velja Zamora í 30 manna hóp sinn fyrir keppnina, enda hefur hann verið einn heitasti framherji Englands síðustu mánuðina.

„Ég vissi að ég hefði aldrei staðið undir mínum væntingum eða annarra með því að fara með landsliðinu. Ákvörðunin um uppskurðinn var sameiginleg milli mín, Capellos, læknaliðs Fulham og læknaliðs landsliðsins. Heimsmeistarakeppnin er mikið mót og snýst ekki um mig heldur um enska landsliðið. Capello óskaði mér alls hins besta, kvaðst vonast eftir því að ég myndi ná mér að fullu og kæmi til greina á ný næsta vetur. Svona getur þetta verið, meiðslin komu á versta tíma og síðustu fimm vikur hafa verið hræðilegar fyrir mig," sagði Zamora við BBC í dag.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert