Öruggur sigur Man. Utd á Newcastle

Paul Scholes miðjumaður Man.Utd reynir að stöðva Andy Carroll framherja …
Paul Scholes miðjumaður Man.Utd reynir að stöðva Andy Carroll framherja Newcastle í leiknum í kvöld. Reuters

Manchester United vann öruggan sigur á nýliðum Newcastle, 3:0, í síðasta leiknum í fyrstu umferð ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu á Old Trafford í kvöld.

Dimitar Berbatov og Darren Fletcher skoruðu fyrir United í fyrri hálfleiknum og Ryan Giggs innsiglaði sigurinn skömmu fyrir leikslok.

Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is:

85. MARK - 3:0. Það er enginn annar en Ryan Giggs sem kemur United í 3:0 og hann hefur þar með skorað á öllum 19 keppnistímabilum úrvalsdeildarinnar, einn manna. Hann fær sendingu frá Paul Scholes inní  vítateiginn vinstra megin og afgreiðir boltann viðstöðulaust á lofti, með jörðu og í markhornið fjær. Flott tilþrif.

82. Dimitar Berbatov er hársbreidd frá því að skora sitt annað mark en Steve Harper ver frá honum úr dauðafæri á markteig.

72. Man.Utd er áfram með öll tök á leiknum. Javier Hernández, nýi Mexíkóinn, er kominn inná sem varamaður, fyrir Wayne Rooney, og var vel fagnað á Old Trafford. Ryan Giggs er kominn inná fyrir Nani og bætir enn einu tímabilinu í úrvalsdeildinni í sarpinn.

45. Hálfleikur á Old Trafford og allt stefnir í öruggan sigur Manchester United í fyrsta leik tímabilsins.

42. MARK - 2:0. Patrice Evra kemst inní vítateig Newcastle vinstra megin og sendir fasta sendingu inní markteiginn. Boltinn hrekkur af Wayne Rooney og Darren Fletcher fylgir vel á eftir og afgreiðir hann í netið.

33. MARK - 1:0. Dimitar Berbatov fær sendingu frá Paul Scholes hægra megin í vítateiginn og sendir boltann í markhornið fjær.

22. Tveir leikmenn Newcastle, Joey Barton og James Perch, eru þegar komnir með gula spjaldið, báðir fyrir að brjóta á Nani skammt utan vítateigs Newcastle.

10. Andy Carroll framherji Newcastle með hættulegan skalla eftir hornspyrnu, rétt framhjá markvinklinum vinstra megin.

1. Flautað til leiks aðeins á eftir áætlun, eða klukkan 19.02.

Lið Man.Utd: Edwin van der Sar - John O’Shea, Nemanja Vidic, Jonny Evans, Patrice Evra - Antonio Valencia, Paul Scholes, Darren Fletcher, Nani - Wayne Rooney, Dimitar Berbatov.
Varamenn: Tomas Kuszczak, Chris Smalling, Rafael, Ryan Giggs, Michael Carrick, Federico Macheda, Javier Hernández.

Lið Newcastle: Harper, Perch, Coloccini, Williamson, José Enrique, Routledge, Smith, Nolan, Barton, Gutierrez, Carroll.
Varamenn: Krul, Ryan Taylor, Xisco, Ameobi, Vuckic, Ranger, Tavernier.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert