Arsenal sigraði tíu City-menn

Samir Nasri kom Arsenal í 1:0.
Samir Nasri kom Arsenal í 1:0. Reuters

Arsenal vann í dag öruggan 3:0 sigur á Manchester City í lokaleik 9. umferðar ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu. City lék manni færra í 85 mínútur eftir að Belginn ungi Dedryck Boyata fékk rauða spjaldið. Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is.

Samir Nasri, Alexander Song og Nicklas Bendtner skoruðu mörk Arsenal sem er nú í 2.-4. sæti ásamt Manchester-liðunum tveimur, fimm stigum á eftir toppliði Chelsea.

90. Leik lokið. City-menn virtust hafa gefist upp í kjölfar marksins hjá Song og voru ekki líklegir til að ná í stig eftir það.

88. Varamaðurinn Nicklas Bendtner gulltryggði sigur Arsenal með þriðja markinu, þremur mínútum eftir að hafa komið inná sem varamaður, þegar hann lyfti boltanum laglega yfir Hart markvörð eftir sendingu frá Samir Nasri.

66. Alexander Song kom Arsenal í 2:0 með viðstöðulausu skoti úr vítateignum eftir að varnarmenn City höfðu náð boltanum af Chamakh en mistekist að koma honum í burtu.

45. Hálfleikur. Arsenal hafði 1:0 yfir þegar liðin gengu til búningsklefa. Ljóst er að róðurinn verður City-mönnum þungur í seinni hálfleik vegna rauða spjaldsins sem Boyata fékk en þeir sýndu þó undir lok fyrri hálfleiksins að þeir hafa ekki gefist upp.

40. Arsenal fékk vítaspyrnu þegar Kompany braut á Cesc Fabregas rétt innan vítateigs. Spánverjinn tók spyrnuna sjálfur en Joe Hart varði glæsilega.

28. Micah Richards var nálægt því að jafna metin fyrir City þegar hann komst inn í vítateiginn hægra megin með boltann, lék til vinstri og skrúfaði knöttinn í átt að vinstra markhorninu en boltinn fór rétt framhjá.

21. Arsenal nýtti sér liðsmuninn á 21. mínútu þegar Samir Nasri og Arshavin náðu glæsilegu þríhyrningsspili sem endaði með því að Nasri skoraði af stuttu færi. Staðan því 1:0 Arsenal í vil.

5. Fabregas tók aukaspyrnu á 5. mínútu og sendi stungusendingu á Chamakh sem var að sleppa einn í gegn en Belginn ungi, Dedryck Boyata, tæklaði hann niður og fékk að líta rauða spjaldið fyrir. Manchester City þarf því að leika manni færra í 85 mínútur ef að líkum lætur.

1. Tévez sýndi góða tilburði á hægri kantinum strax á fyrstu mínútu og sendi svo boltann fyrir markið á David Silva sem náði laglegri spyrnu af stuttu færi en Fabianski varði frábærlega.

Lið Man City: Hart, Richards, Boyata, Kompany, Boateng, Silva, Toure Yaya, De Jong, Barry, Milner, Tevez.
Varamenn: Given, Bridge, Adebayor, Adam Johnson, Lescott, Vieira, Balotelli.

Lið Arsenal: Fabianski, Sagna, Djourou, Squillaci, Clichy, Nasri, Fabregas, Song, Denilson, Arshavin, Chamakh.
Varamenn: Szczesny, Koscielny, Rosicky, Walcott, Eboue, Gibbs, Bendtner
Belginn ungi Dedryck Boyata fékk rautt spjald á 5. mínútu.
Belginn ungi Dedryck Boyata fékk rautt spjald á 5. mínútu. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert