Wenger: Afrek Fergusons ekki leikið eftir

Sir Alex Ferguson og Arsene Wenger hafa oft tekist á …
Sir Alex Ferguson og Arsene Wenger hafa oft tekist á en eru annars miklir mátar. Reuters

Arsene Wenger, knattspyrnustjóri Arsenal, segir að það afrek Alex Fergusons að stýra Manchester United í 25 ár verði aldrei leikið eftir. Á sunnudag er nákvæmlega aldarfjórðungur síðan Ferguson tók við liði United, eftir mikla sigurgöngu hjá Aberdeen í Skotlandi í átta ár þar á undan.

„Hvað er hægt að segja? Þetta er mikið í umræðunni núna og þetta er magnað, vegna gæðanna og stöðugleikans. Þetta er einstakt afrek vegna þess að ég veit ekki um nokkurn mann sem hefur verið í 25 ár við stjórnvölinn hjá liði í fremstu röð. Það er líka öruggt að þetta afrek verður aldrei leikið eftir," sagði Wenger á fréttamannafundi í dag.

Wenger hefur stýrt Arsenal í 15 ár og er næstur á eftir Ferguson hvað tímalengd varðar í ensk úrvalsdeildinni. Hann efast um að geta leikið þetta eftir kollega sínum.

„Það er einum of mikill munur þarna á milli, ég þyrfti að vera áfram næstu tíu árin. Ég yrði nú  bara ánægður með að gera gott úr yfirstandandi tímabili eftir allt sem hefur gengið á," sagði Wenger í léttum dúr.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert