Ferguson hafnar friðarviðræðum

Luis Suárez og Patrice Evra.
Luis Suárez og Patrice Evra. Reuters

Alex Ferguson, knattspyrnustjóri Manchester United, gefur lítið fyrir fregnir af því að Liverpool vilji koma á sáttafundi á milli félaganna í kjölfarið á deilunni um mál Luis Suárez og Patrice Evra.

Fregnir bárust um að forráðamenn Liverpool vildu setjast niður með kollegum sínum hjá Manchester United til að koma á eðlilegu sambandi félaganna á ný. Þau mætast á Old Trafford í úrvalsdeildinni 11. febrúar en þá verður Suárez laus úr átta leikja banninu sem hann fékk á dögunum. Viðbúið er að þar fái Úrúgvæinn það heldur betur óþvegið frá stuðningsmönnum Manchester United.

„Ég sé enga þörf fyrir slíkt. Það er mjög fallegt af þeim að koma þessu á framfæri í gegnum fjölmiðla,“ sagði Ferguson þegar hann var spurður út í málið á fréttamannafundi sínum á Old Trafford í dag.

„Maður hefði haldið að þeir myndu fyrst snúa sér til Manchester United. Ég sé ekki þörfina fyrir svona viðræður en þetta mál er ekki á minni könnu,“ sagði Ferguson.

Félögin tvö eru erkifjendur frá fornu fari og umrædd deila og meint kynþáttaníð Suárez í garð Evra, sem hann var dæmdur fyrir í umrætt bann, hefur sett samskipti þeirra niður undir frostmarkið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert