McFadden til reynslu hjá Sunderland

James McFadden í leik með Birmingham.
James McFadden í leik með Birmingham. Reuters

James McFadden, fyrrverandi sóknarmaður Everton og skoska landsliðsins í knattspyrnu, er kominn til úrvalsdeildarliðs Sunderland til reynslu en hann hefur verið samningslaus síðan hann yfirgaf Everton að síðasta tímabili loknu.

McFadden, sem er 29 ára gamall, lék aðeins 8 leiki með Everton í fyrra en þá hafði hann snúið aftur til félagsins eftir þriggja ára dvöl hjá Birmingham. Áður var hann leikmaður Everton frá 2003 og skoraði 15 mörk í 48 landsleikjum fyrir Skota á árunum 2002 til 2010.

Martin O'Neill, knattspyrnustjóri Sunderland, segir að hann ætli að sjá hvernig sér og McFadden líki næstu dagana. „Everton lét hann fara þar sem þeir höfðu nóg af sóknarmönnum. Við erum ekki með sömu breidd og þeir og hann gæti nýst okkur. En þetta kemur í ljós, kannski líst honum ekkert á okkur,“ sagði O'Neill við blaðið Journal.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert