Pienaar einbeitir sér að Everton

Steven Pienaar í leik með Everton.
Steven Pienaar í leik með Everton. AFP

Steven Pienaar, miðjumaður Everton, hefur tilkynnt suðurafríska knattspyrnusambandinu að hann gefi ekki lengur kost á sér í landslið þjóðar sinnar en þar hefur hann gegnt stöðu fyrirliða.

Gordon Igesund, landsliðsþjálfari Suður-Afríku, segir að menn verði að virða þessa ákvörðun Pienaars sem hafi spilað með landsliðinu í tíu ár. Bongali Khumalo, leikmaður Tottenham, sem er í láni hjá PAOK í Grikklandi, hefur verið skipaður fyrirliði í hans stað.

Pienaar, sem er þrítugur að aldri, hefur leikið í ensku úrvalsdeildinni frá 2007 þegar hann kom fyrst til Everton sem lánsmaður frá Borussia Dortmund og gekk síðan til liðs við félagið. Tottenham keypti hann 2011 en Pienaar festi ekki rætur í London, var lánaður aftur til Everton í fyrra og fór aftur alfarinn til félagsins í sumar.

Pienaar á að baki 57 landsleiki fyrir Suður-Afríku og skoraði tvö mörk. Hann lék með landsliði þjóðar sinnar á HM 2002 og 2010.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert