Hvað mega enskir landsliðsmenn gera?

Steven Gerrard hefur samþykkt reglur knattspyrnusambandsins.
Steven Gerrard hefur samþykkt reglur knattspyrnusambandsins. AFP

Leikmenn enska landsliðsins í knattspyrnu hafa fengið ítarlegan lista með reglum sem þeir þurfa að fylgja á meðan þeir eru í landsliðsverkefnum. Reglurnar voru fyrst kynntar fyrir leikmönnum fyrir leikinn við San Marínó á föstudag en þær tengjast meðal annars notkun Twitter og tölvuleikja, herbergisþjónustu á hótelum og fleiru.

Nýverið hafa komið upp tvö mál vegna skrifa leikmanna landsliðsins á Twitter, þeirra Ashleys Coles og Ryans Bertrands, en samkvæmt reglunum er leikmönnum enn frjálst að tjá sig á samskiptavefnum. Það mega þeir þó ekki gera á leikdegi eða degi fyrir leik, og aldrei má gagnrýna samherja, þjálfara eða dómara. Sömu reglur gilda um aðra samskiptamiðla.

Þá er meðal annars ætlast til að „hæfilegum“ tíma sé eytt í tölvuleikjaspil, og að herbergisþjónusta á hótelum sé ekki notuð.

Fyrirliðanum, sem nú er Steven Gerrard, er ætlað að vera fyrirmynd fyrir aðra leikmenn og enska knattspyrnusambandið áskilur sér rétt til að svipta fyrirliðann stöðu sinni fari hann á skjön við sitt hlutverk. Það gerði knattspyrnusambandið reyndar þegar John Terry var fyrirliði og Fabio Capello hætti sem þjálfari í kjölfarið.

Hér að neðan er listi yfir reglurnar.

Þetta má ekki:

  • Nota lyf án leyfis læknis. 
  • Leka leynilegum upplýsingum. 
  • Klæðast óviðurkenndum íþróttafötum með persónulegum áritunum. 
  • Neyta áfengis án leyfis þjálfarans. 
  • Nota lyf eða önnur bönnuð efni. 
  • Nýta herbergisþjónustu. 
  • Veðja á fótboltaleiki. 
  • Gagnrýna fólk á Twitter eða Facebook. 

Þetta á að gera:

  • Virða andstæðinginn, dómarana og stuðningsmenn. 
  • Virða menningu og hefðir annarra þjóða.
  • Sinna stuðningsmönnum í lok leikja og á ferðalögum á æfingar og í leiki. 
  • Virða hótelstarfsfólk. 
  • Virða starfsfólk sem sinnir lyfjaprófum. 
  • Mæta á réttum tíma á liðsfundi. 
  • Nota hæfilegan tíma í að spila tölvuleiki.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert