Gerrard: Sturridge þarf að grípa tækifærið

Daniel Sturridge á Anfield í gærkvöld þar sem hann sá …
Daniel Sturridge á Anfield í gærkvöld þar sem hann sá Liverpool vinna Sunderland 3:0. AFP

Steven Gerrard, fyrirliði enska knattspyrnuliðsins Liverpool, segir að nýjasti liðsmaður félagsins, Daniel Sturridge, hafi fengið gott tækifæri upp í hendurnar og nú sé það undir honum komið að nýta það.

Liverpool keypti í gær Sturridge af Chelsea fyrir 12 milljónir punda en hann er 23 ára gamall framherji og lék áður með Manchester City.

„Daniel hefur hæfileikana, það veit ég því ég hef séð það mikið til hans. Honum gekk ekki nógu vel hjá Manchester City og fór til Chelsea þar sem hann hefur ekki spilað eins mikið og hann vildi, en hefur þó sýnt snilli sína af og til. Nú er hann á þeim aldri að hann þarf að festa rætur og sýna hvað í honum býr frá leik til leiks," sagði Gerrard í viðtali við Independent.

„Ef hann sýnir stöðugleika, jafna og góða leiki með okkur, getur hann komið okkur að góðu liði við að koma félaginu þangað sem við viljum hafa það. Hann hefur sagt að hann vilji spila með stórliði og hér fær hann tækifærið. Engar afsakanir með það, hann mun spila með góðum leikmönnum í frábæru félagi. Hér er allt til staðar, nú er það hans að grípa tækifærið báðum höndum og nýta það," sagði Gerrard.

Sturridge gæti spilað sinn fyrsta leik á sunnudaginn þegar Liverpool sækir utandeildaliðið Mansfield heim í 3. umferð ensku bikarkeppninnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert