Lucas: Dreymir um fjórða sætið

Leiva lætur Kemy Agustien, leikmann Swansea, finna fyrir sér.
Leiva lætur Kemy Agustien, leikmann Swansea, finna fyrir sér. AFP

Brasilíski miðjumaðurinn Lucas Leiva, leikmaður Liverpool, leyfir sér að dreyma um fjórða sætið í deildinni og þar með þátttökurétt í Meistaradeildinni næsta vetur eftir sigurinn á Tottenham á sunnudaginn.

Liverpool er á svakalegu skriði þessa dagana og er nú aðeins sjö stigum frá fjórða sætinu þegar níu leikir eru eftir í ensku úrvalsdeildinni.

„Okkar besti kostur í leiknum var að við gáfumst aldrei upp. Við urðum ekki pirraðir þegar við vorum að tapa og sýndum styrk okkar með að koma til baka,“ segir Lucas við Terra.

„Við erum að bæta okkur á réttum tíma og vegna þess leyfum við okkur að dreyma um Meistaradeildarsæti. Þetta var þriðji sigurinn í röð en það er ekki auðvelt að vinna þrjá í röð í úrvalsdeildinni,“ segir Lucas Leiva.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert