Eto'o biður Henderson afsökunar

Samuel Eto’o fagnar sigurmarkinu gegn Liverpool.
Samuel Eto’o fagnar sigurmarkinu gegn Liverpool. AFP

Kamerúnski framherjinn Samuel Eto'o hjá Chelsea hefur beðið Jordan Henderson, miðjumann Liverpool, afsökunar á að hafa brotið illa á honum á upphafsmínútunum í leik liðanna á Stamford Bridge á sunnudaginn.

Eto'o, sem skoraði sigurmark Chelsea seinna í leiknum, braut nokkrum sinnum illa af sér í leiknum en slapp við spjald.

„Ég hefði kannski átt að fá rauða spjaldið fyrir þetta. En ég dæmi ekki leikina. Allir hafa rétt á sinni skoðun en við verðum að virða ákvarðanir dómaranna. Í byrjun leiks voru allir spenntir og ástríðufullir, í báðum liðum, en fólk veit að ég er ekki grófur leikmaður. Mér fannst mjög leitt að sjá Jordan liggja eftir mig og vil nýta þetta tækifæri til að biðja hann afsökunar," sagði Eto'o í viðtali við götublaðið The Sun í dag.

„Oft er það ég sem verð fyrir því að fá spörkin en svona getur alltaf gerst í fótboltanum. En ég var bara að hugsa um að hjálpa liði mínu að verjast, ekkert annað. Ég ætlaði ekki að meiða mótherja," sagði Eto'o.

Hann var ekki jafn viss um að hann hefði átt að fá vítaspyrnu á sig seinna í leiknum þegar Luis Suárez féll í návígi þeirra. „Dómarinn gerði sitt. Hann stóð tvo metra frá okkur. Við tökum ekki framfyrir hendur hans og það er auðvelt að gagnrýna. Já, ég snerti hann, en braut ekki af mér," sagði Eto'o og hældi jafnframt Webb dómara.

„Hann er ekki bara einn af bestu dómurunum - hann er besti dómari heims," sagði Kamerúninn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert