Rodgers svekktur að missa af Salah

Brendan Rodgers vildi fá Mohamed Salah.
Brendan Rodgers vildi fá Mohamed Salah. AFP

Brendan Rodgers, knattspyrnustjóri Liverpool, fer ekki leynt með vonbrigði sín yfir því að félagið skyldi ekki ná að kaupa Mohamed Salah, egypska kantmanninn, sem Chelsea krækti í frá Basel í Sviss á dögunum.

„Það var í höndum okkar peningamanna að ganga frá þessu. Þeir sáu um viðræðurnar við leikmanninn, umboðsmanninn og Basel. Okkur tókst ekki að ná samkomulagi, en það gat Chelsea hinsvegar og þessvegna fór strákurinn þangað," sagði Rodgers við staðarblaðið Liverpool Echo.

„Allir vita að hann er góður leikmaður, en hann er út úr myndinni. Okkar menn gerðu allt sem þeir töldu mögulegt til að ná samningum en það tókst ekki. Það er erfitt að kyngja því þegar leikmaðurinn fer svo til annars félags, en það þýðir ekki að velta lengur vöngum yfir því, við verðum bara að horfa fram á veginn," sagði Rodgers og kveðst vonast til þess að félagið nái að stækka sinn hóp fyrir vikulokin þegar lokað verður fyrir félagaskiptin.

„Það yrði svekkjandi ef það tækist ekki, en ef þannig fer, verð ég að vinna úr því sem ég er með í höndunum," sagði Brendan Rodgers.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert