Mourinho: París SG er sigurstranglegra

José Mourinho, knattspyrnustjóri Chelsea, er kominn í hefðbundinn sálfræðihernað og segir að París SG sé sigurstranglegri aðilinn í einvígi félaganna í 8-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu.

Fyrri leikur liðanna fer fram á Parc des Princes-leikvanginum í París í kvöld og hefst klukkan 18.45.

„Þeir eru með fullt af frábærum sóknarmönnum og markaskorurum og það gerir útslagið þegar menn eru komnir á þennan stað. Öll liðin í átta liða úrslitunum eru góð, spila mismunandi fótbolta, en eru góð lið með góða uppbyggingu og ákveðna aðferðafræði. Þarna eru Messi, Ronaldo, Lewandowski, Costa, Ibrahimovic, Cavani, Lavezzi - og París SG er með marga af þessum mönnum,“ sagði Mourinho á fréttamannafundi á Parc des Princes.

„Menn eins og Alex, Thiago Silva, Zlatan, Motta, Maxwell og Cavani eru með mikla reynslu í þessari keppni. París er því sigurstranglegri aðilinn i þessu einvígi,“ sagði Portúgalinn ennfremur.

„París er með mjög heilsteypt lið, fullt af góðum leikmönnum og með góðan þjálfara. Það er mikil ástríða fyrir fótbolta í borginni og Parc des Princes er fallegur leikvangur. Nú eru þeir bestir í Frakklandi, eins og Chelsea var áður best í Englandi. Rétt eins og Chelsea gerði er París nú farið að herja á Meistaradeild Evrópu ár eftir ár, vill ná lengra og lengra og nú vilja þeir vinna deildina,“ sagði Mourinho.

José Mourinho og Cesar Azpilicueta, leikmaður Chelsea, á fréttamannafundinum.
José Mourinho og Cesar Azpilicueta, leikmaður Chelsea, á fréttamannafundinum. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert