Sherwood: Verðið að spyrja eigendurna um mína framtíð

Tim Sherwood fagnar marki með Emmanuel Adebayor í leiknum í …
Tim Sherwood fagnar marki með Emmanuel Adebayor í leiknum í kvöld. AFP

Tim Sherwood knattspyrnustjóri Tottenham á ekki framtíð fyrir sér sem knattspyrnustjóri liðsins eftir þessa leiktíð samkvæmt frétt Sky Sports í dag en hann segir árangur liðsins undir sinni stjórn ekki verri en hjá forverum sínum.

Tottenham vann 5:1-sigur á Sunderland í kvöld og kom sér aftur upp í 6. sæti.

„Mér fannst strákarnir stórkostlegir. Það var erfitt að lenda undir eftir þessi slæmu mistök, og hreinlega gefa þeim markið, en mér fannst við koma vel tilbaka og við höfðum mikla yfirburði,“ sagði Sherwood. Fimm umferðir eru eftir af deildinni og Sherwood er ekki viss um að framtíð sín sé ráðin.

„Fyrir mér eru fimm bikarúrslitaleikir eftir núna og hver veit hvað tekur við eftir það. Þegar maður skoðar árangurinn minn hérna þá sést að hann er ekki verri en hjá neinum síðan Daniel Levy tók við stjórnartaumunum,“ sagði Sherwood.

„Þið verðið að spyrja eigendurna út í mína stöðu. Það er heiður að stýra þessu félagi og ég er mjög stoltur af því,“ bætti hann við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert