Ireland með nýjan samning við Stoke

Stephen Ireland í leik með Stoke gegn Chelsea.
Stephen Ireland í leik með Stoke gegn Chelsea. epa

Írski knattspyrnumaðurinn Stephen Ireland hefur skrifað undir nýjan samning við enska úrvalsdeildarfélagið Stoke City til þriggja ára.

Ireland, sem er 27 ára miðjumaður, var í láni hjá félaginu frá Aston Villa en kom alfarinn til Stoke í janúar. Hann hefur spilað 25 leiki með liðinu í úrvalsdeildinni í vetur og skorað þrjú mörk.

„Það er mikilvægt fyrir leikmann að finna að áhugi sé á honum og að hann sé hluti af einhverju, og þá tilfinningu upplifi ég núna í fyrsta skipti í langan tíma. Ég gæti ekki verið á betri stað," sagði Ireland við vef Stoke í dag. Liðið er í 10. sæti úrvalsdeildarinnar undir stjórn Mark Hughes og komið í örugga höfn eftir að hafa verið skammt ofan fallsvæðisins lengst af.

Ireland var í röðum Manchester City frá 15 ára aldri og lék í fimm ár með aðalliði félagsins áður en hann fór til Aston Villa árið 2010.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert