Burnley skrefi nær úrvalsdeildinni

Michael Kightly skoraði sigurmark Burnley.
Michael Kightly skoraði sigurmark Burnley. AFP

Burnley náði ekki að tryggja sér sæti í ensku úrvalsdeildinni. Derby kom fyrir það í kvöld með sigri gegn Doncaster á útivelli, 2:0.

Í dag hafði Burnley betur á móti Blackpool, 1:0, og hefði Derby ekki unnið sinn leik í kvöld þá væri úrvalsdeildarsætið í höfn hjá Burnley.

Leicester er þegar búið að tryggja sér sæti í úrvalsdeildinni en liðið hefur 90 stig í efsta sæti. Burnley hefur 86 og Derby 78. Níu stig eru eftir í pottinum og því getur Derby komist upp fyrir Burnley þó það sé ansi langsótt. Derby þarf þá að vinna sína þrjá leiki og treysta á að Burnley fái aðeins eitt stig úr sínum þremur.

Með sigrinum gulltryggði Derby sér sæti í umspilinu, komist liðið ekki beint upp. QPR og Wigan standa mjög vel að vígi um að komast þangað en Brighton, Reading, Ipswich, Bournemouth, Blackburn, Nottingham Forest, Middlesbrough og Watford eiga öll möguleika á að ná sjötta sætinu og sleppa í umspilið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert