Suárez of góður fyrir Arsenal

Luis Suárez.
Luis Suárez. AFP

Steven Gerrard fyrirliði enska úrvalsdeildarliðsins Liverpool hefur viðurkennt að hann hafi sannfært Luis Suárez um að vera kyrr fyrir hjá Liverpool síðasta sumar því hann væri of góður fyrir Arsenal.

Suárez sem yfirgaf Liverpool fyrr í sumar eftir að spænska stórliðið Barcelona keypti hann fyrir 75 milljónir punda var orðaður við Arsenal síðasta sumar og Liverpool barst meira að segja tilboð í framherjann frá Arsenal upp á 40 milljónir punda.

„Draumur hans hefur alltaf verið að spila fyrir Real Madríd eða Barcelona,“ sagði Gerrard í viðtali við Sky.

„Síðasta sumar þegar hann fékk ekki að æfa með aðalliði Liverpool átti ég samtal við hann þar sem ég sagði honum að fara ekki til Arsenal. Með fullri virðingu fyrir Arsenal, þá sagði ég Suárez að hann væri of góður fyrir það lið,“ sagði Gerrard.

„Ég sagði honum líka að ef hann myndi skora 30 mörk eða meira fyrir okkur og verða valinn leikmaður ársins af leikmönnum ensku úrvalsdeildarinnar þá myndu Barcelona og Real Madríd vilja fá hann til sín,“ sagði Gerrard meðal annars í viðtali við Sky.

„Ég hefði verið mjög sorgmæddur að sjá Luis fara til Arsenal. Ég er vonsvikinn að hann sé farinn frá Liverpool núna, en um leið samgleðst ég honum því hann er nú kominn til liðs sem hann hefur alltaf stefnt á að leika fyrir og hann á það skilið,“ sagði Steven Gerrard fyrirliði Liverpool um Luis Suárez.

Steven Gerrard og Luis Suárez.
Steven Gerrard og Luis Suárez. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert