Costa: Kemur að því að þessu ljúki

Diego Costa hefur fallið vel í kramið hjá stuðningsmönnum Chelsea …
Diego Costa hefur fallið vel í kramið hjá stuðningsmönnum Chelsea enda verið magnaður í upphafi leiktíðar. AFP

Diego Costa hefur farið stórkostlega af stað með sínu nýja liði Chelsea í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu og skorað sjö mörk í fyrstu fjórum leikjum sínum fyrir liðið.

Costa hefur að meðatali skorað með 47,4 mínútna millibili og er fyrsti leikmaðurinn í deildinni sem nær að skora sjö mörk svo fljótt fyrir nýtt félag. Hann skoraði þrennu gegn Swansea um helgina.

„Ég reyni að spila eins vel og ég get og vonandi heldur þetta svona áfram, en ég veit að það kemur að því að mér tekst ekki að skora. Þannig er fótboltinn,“ sagði Costa.

„Það er þannig með alla framherja að þeir hafa sinn stíl og styrkleikarnir nýtast mismunandi eftir liðunum sem þeir leika með. Ef liðið styður ekki við þig þá gerist ekkert. Þetta veltur allt á liðinu,“ sagði Costa.

„Mér gengur mjög vel að aðlagast, en það veltur ekki bara á mér. Lykillinn að því er þessi hópur sem við höfum. Þetta er eins og fjölskylda. Leikmannahópurinn og allt fólkið í kringum liðið er mjög samstillt,“ sagði Costa sem segist tilbúinn að gera hvað sem er til að fagna sigri.

„Ég spila bara eins og ég þarf. Ef ég þarf að fara í líkamleg átök þá get ég barist. Ef ég þarf að sýna listir mínar þá get ég gert það líka,“ sagði Costa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert