Lampard sótti stig gegn Chelsea

Englandsmeistarar Manchester City og topplið Chelsea gerðu í dag stórmeistarajafntefli, 1:1, í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu. Eftir markalausan fyrri hálfleik opnaðist leikurinn þegar Pablo Zabaleta, bakvörður City, var rekinn af velli með rautt spjald á 66. mínútu.

Í kjölfarið kom Andre Schürrle Chelsea yfir með marki á 71. mínútu. En Frank Lampard sem lék með Chelsea í 13 ár, lék 648 leiki fyrir félagið og skoraði 211 mörk, kom inn á sem varamaður hjá Manchester City á 78. mínútu. Hann var ekki búinn að vera inni á vellinum í nema sjö mínútur þegar hann jafnaði metin gegn sínu gamla félagi í 1:1 og þar við sat.

Lampard ákvað þó að fagna ekki með neinum látum af virðingu við stuðningsmenn Chelsea, sem hann ann enn heitt. Þetta var fyrsti leikur Chelsea í deildinni á leiktíðinni, sem Lundúnaliðið vinnur ekki.

Á sama tíma í dag vann Crystal Palace svo 3:2-sigur á Everton. Mile Jedinak, Frazier Campbell og Yannick Bolasie skoruðu mörk Palace en Romelu Lukaku og Leighton Baines fyrir Everton.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert