Van Gaal öfundar ekki City

Louis van Gaal er bjartsýnn fyrir stórleikinn á morgun.
Louis van Gaal er bjartsýnn fyrir stórleikinn á morgun. AFP

Sálfræðistríðið fyrir stórleik Manchester-liðanna United og City í ensku úrvalsdeildinni á morgun er fyrir löngu hafið, en Louis van Gaal, knattspyrnustjóri United, segist ekki öfunda kollega sinn Manuel Pellegrini af stjörnuprýddu liði City.

„Ég er ekki öfundsjúkur út í leikmannahóp Man City. Ég er stoltur af mínum leikmönnum og það er það sem skiptir höfuðmáli. Þegar við spilum eins og lið eigum við alltaf góðan möguleika á sigri,“ sagði van Gaal, sem var þó sjálfur óspar á eyðslunni í sumar og keypti leikmenn fyrir meira en 150 milljónir punda.

Hann segir að sigur yrði kærkominn fyrir liðsandann, en City hefur ekki unnið þrjá síðustu leiki sína.

„Við erum að bíða eftir kraftinum sem maður finnur fyrir þegar liðið er á góðu skriði. Það getur gefið þér meira en bara góð úrslit. Man City er í vandræðum og það sem við sáum til þeirra í síðasta leik var ekki sérstaklega gott. Við höfum því góða tilfinningu fyrir leiknum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert