Balotelli: Betri hjá Liverpool en City

Mario Balotelli í leik með Liverpool.
Mario Balotelli í leik með Liverpool. AFP

Ítalinn Mario Balotelli segist vera betri knattspyrnumaður í dag en hann var meðan hann lék með Manchester City og það sé aðeins tímaspursmál hvenær hann fari að skora reglulega fyrir Liverpool og sýna að hann sé leikmaður í fremstu röð.

Stuðningsmenn Liverpool eru margir hverjir að missa þolinmæðina gagnvart Ítalanum sem hefur enn ekki skorað mark fyrir félagið í úrvalsdeildinni.

Sky Sports bað Balotelli að gefa sjálfum sér einkunn fyrir frammistöðuna, með Manchester City á sínum tíma og með Liverpool í dag, á kvarðanum 1 til 10.

„Ég myndi segja 6,5 hjá City en gæfi sjálfum mér hálfu stigi meira í dag, segjum sjö. Nú hleyp ég og hleyp, ég hef aldrei áður hlaupið eins mikið og síðan ég kom til Liverpool, svo ég gef mér hálfu stigi meira,“ sagði Balotelli.

„Mörkin - þau munu koma. Þetta gengur ekki alveg í augnablikinu en ég er ekki  bara allt í einu hættur að skora. Ég þarf ekki á því að halda að aðrir hafi trú á mér, á meðan ég hef fulla trú á sjálfum mér. Þeir sem skipta mig máli eru fjölskylda mín og nokkrir nánir vinir, á meðan þeir hafa trú á mér. Sumir halda að fyrst mér hefur gengið illa að skora það sem af er tímabilinu þá geti ég ekki komist í fremstu röð meðal leikmanna og verið þessu liði virkilegur styrkur. Það er þeirra mál. Mér er sama hvað aðrir segja um mig því ég veit að þeir hafa ekki rétt fyrir sér,“ sagði Mario Balotelli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert