„Tók bara sénsinn“

Gylfi Þór Sigurðsson.
Gylfi Þór Sigurðsson. AFP

„Ég lít alltaf á markvörðinn og sé hvernig mér líður,“ sagði Gylfi Þór Sigurðsson leikmaður Swansea á vef félagsins eftir sigurinn gegn Aston Villa þar sem hann skoraði sigurmarkið með skoti beint úr aukaspyrnu.

„Bony var í veggnum og ég held að hann hafi hindrað útsýndi markvarðarins. Ég tók því sénsinn að hann hefði tekið skref á nærstöngina,“ sagði Gylfi, sem skoraði sitt þriðja mark í deildinni á leiktíðinni.

„Við vorum talsvert betri í fyrri hálfleiknum og hefðum átt að skora annað mark og gera þar með út um leikinn. Seinni hálfleikurinn var ekki sá fallegast. Við vörðumst vel og Fabianski varði nokkrum sinnum frábærlega. Að vinna tvo leiki í röð 1:0 er mjög mikilvægt fyrir okkur. Jafnvel þótt við höfum ekki spilað okkar besta leik í seinni hálfleik þá tókst okkur að halda hreinu og innbyrða þrjú stig,“ sagði Gylfi.

Gylfi og félagar halda til Liverpool á sunnudaginn og mæta heimamönnum á Anfield.

„Það yrði frábært að ná að vinna þriðja sigurinn í röð en Liverpool er að snúa gengi sínu við með síðustu leikjum og við vitum að Anfield er erfiður staður að fara á. En okkur hefur tekist að vinna tvo leiki í röð og við vitum að við getum veitt Liverpool keppni og vonandi náð þar góðum úrslitum.“

 
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert